Íslenski boltinn

Sjáðu sigurmark Söndru í Kópavoginum og öll hin úr 11. umferðinni | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjórir leikir fóru fram í 11. umferð Pepsi-deildar kvenna um helgina. Alls voru 16 mörk skoruð í þessum fjórum leikjum, eða fjögur mörk að meðaltali í leik.

Þetta voru síðustu leikirnir fyrir EM-fríið sem Pepsi-deildin er nú farin í. Keppni hefst aftur 9. ágúst næstkomandi.

Þór/KA vann gríðarlega mikilvægan sigur á Breiðabliki, 1-2, á Kópavogsvelli í toppbaráttunni.

Sandra Stephany Mayor Gutierrez sýndi enn og aftur hversu frábær leikmaður hún er. Mexíkóska landsliðskonan skoraði sigurmark Þórs/KA með skoti beint úr aukaspyrnu þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Hún er komin með níu mörk í deildinni.

Þór/KA situr á toppi deildarinnar með 31 stig, sex stigum á undan Stjörnunni og ÍBV og sjö stigum á undan Breiðabliki.

Agla María Albertsdóttir skoraði þrennu þegar Stjarnan rúllaði yfir KR, 1-5. Stjarnan hefur unnið þrjá leiki í röð með markatölunni 11-1. KR hefur hins vegar tapað þremur leikjum í röð með markatölunni 1-12.

ÍBV hélt sigurgöngu sinni áfram þegar liðið lagði Val að velli, 3-1, á Hásteinsvelli. Þetta var fimmti deildarsigur ÍBV í röð en liðið hefur haldið hreinu í fjórum þeirra. Cloé Lacasse skoraði tvö mörk fyrir ÍBV en hún er markahæst í deildinni með 11 mörk.

Þetta var hins vegar fyrsta tap Vals síðan 16. maí. Liðið er áfram í 5. sæti deildarinnar.

Grindavík fór langt með að bjarga sér frá falli með 1-2 útisigri á Haukum. Grindvíkingar hafa unnið tvo leiki í röð og eru komnar átta stigum frá fallsæti þegar sjö umferðum er ólokið. Haukar sitja hins vegar sem fastast á botni deildarinnar með aðeins eitt stig.

Mörkin 16 úr 11. umferð Pepsi-deildar kvenna má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×