Íslenski boltinn

Hermann Hreiðarsson ráðinn þjálfari Fylkis

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hermann Hreiðarsson er kominn aftur í appelsínugult.
Hermann Hreiðarsson er kominn aftur í appelsínugult. vísir/valli
Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í fótbolta, hefur verið ráðinn þjálfari kvennaliðs Fylkis en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Hermann tekur við Fylki af Jóni Aðalsteini Kristjánssyni sem lét af störfum fyrir helgi. Fylkisliðið er er í níunda og næstsíðasta sæti Pepsi-deildar kvenna með fjögur stig, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Síðast þjálfaði Hermann karlalið Fylkis en hann hóf þjálfaraferilinn á heimaslóðum í Vestmannaeyjum þegar hann kom heim úr atvinnumennsku.

Sigurður Þór Reynisson var ráðinn aðstoðarþjálfari Hermanns og Kristbjörg Ingadóttir verður þeim til aðstoðar. Kristbjörg hefur verið í þjálfarateyminu frá síðasta sumri.

„Við erum mjög ánægð með þessa ráðningu. Hermann er flottur þjálfari. Stemmning er eitt af því sem hann er þekktur fyrir og það mun vonandi hjálpa okkur í því verkefni að rétta við gengi liðsins, halda okkur í deild þeirra bestu og byggja upp lið til framtíðar" segir Halldór Steinsson formaður meistaraflokksráðs kvenna hjá Fylki.

Sjálfur kveðst Hermann spenntur fyrir verkefninu:

„Þetta verður krefjandi verkefni en jafnframt spennandi og skemmtilegt. Ég er þakklátur fyrir tækifærið sem Fylkir er að veita mér. Félagið hefur ávallt staðið vel við bakið á mér. Ég þekki þá vel sem koma að félaginu, stjórnarmenn, leikmenn og stuðningsmenn. Nú er bara að vona að allt Fylkisfólk snúi bökum saman og geri allt til að mynda stemmningu til að hjálpa liðinu" segir Hermann Hreiðarsson nýr þjálfari kvennaliðs Fylkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×