Lífið

Á tvö afmæli á hverju ári

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
 "Ég var fimm og hálfs árs þegar ég flutti frá Neskaupstað og man vel eftir mér að þvælast um Slippinn og í beitningarskúrunum. Þar pössuðu allir alla,“ segir Guðmundur.
"Ég var fimm og hálfs árs þegar ég flutti frá Neskaupstað og man vel eftir mér að þvælast um Slippinn og í beitningarskúrunum. Þar pössuðu allir alla,“ segir Guðmundur. Vísir/Anton Brink
„Foreldrar mínir bjuggu á Neskaupstað fyrir sjötíu árum. Pabbi var yfirsmiður við Slippinn. Hann hét Magnús Guðmundsson og ég var fyrsta barn hans og mömmu, Guðrúnar Benediktsdóttur,“ segir Guðmundur Magnússon, leikari og fyrrverandi formaður Öryrkjabandalagsins. Hann er sjötugur í dag.

„Mamma fór með strandferðaskipi suður til að fæða mig í Reykjavík þó sjóveikari manneskja væri vandfundin. Hún var frá Blönduósi, meðal þeirra yngri í þrettán systkina hópi og vildi fæða barnið í skjóli móður sinnar, Guðrúnar Friðriku, sem þá var nýflutt sem ekkja að norðan og hélt til hjá syni sínum sem bjó í pínulitlu húsi við Fálkagötuna með konu sinni og tveimur ungum börnum. Ein af elstu systrum hans var þar líka. Svo hélt mamma sömu leið til baka með mig þriggja vikna. Ég var síðar töluvert til sjós og tel þetta fyrsta ferðalag hafa verið til góðs fyrir mig.“

Guðmundur kveðst hafa verið fimm og hálft ár á Neskaupstað og muna vel eftir sér þar. „Við bjuggum rétt fyrir ofan slippinn og ég var ýmist að þvælast þar eða í beitningaskúrunum. Þar pössuðu allir alla,“ segir hann.

„Þegar við fluttum suður fór ég fyrstur af fjölskyldunni, var sendur með Esjunni með vini hans pabba um miðjan vetur. Mamma kom næst með bróður minn og pabbi kom svo seinna. Við vorum hjá ættingjum ýmist í móður-eða föðurfjölskyldunni fyrsta árið.

Guðmundur fylgdi VG að málum á tímabili og hér stilla þau sér upp fyrir ljósmyndara hann og Kolbrún Halldórsdóttir, ráðherra og þingmaður.Vísir/Daníel
En vorið eftir, um mánuði fyrir sex ára afmælið mitt, var ég sendur með rútu norður á Hvammstanga í sveit til móðurbróður míns sem ég hafði aldrei hitt. Ég átti þar nokkur indæl sumur.

Frændi minn bjó í miðju þorpi með nokkrar kýr, ær og einn hest og heyjaði í hlíðinni ofan við bæinn og víðar í nágrenninu. Hann sló allt með orfi og ljá fyrsta sumarið sem ég var og dró heyið heim á hestinum, þá sat ég á kerrunni, svo var kominn Farmal Cup dráttarvél næst þegar ég kom, æðislega flott.“

Guðmundur fór ungur í leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur. „Í sama árgangi var Sigríður Eyþórsdóttir og Helga Stephensen, sem varð eiginkona mín, Jón Hjartarson, Helga Jónsdóttir og fleiri sem uðru þjóðþekktir leikarar. Sveinn Einarsson var bæði leikhússtjóri og skólastjóri. Hann reyndist mér einstaklega vel. Við nemendurnir voru skítnýttir í allskonar verk og það var skóli útaf fyrir sig.“

Fyrsta áramótaskaups sjónvarpsins var beðið með eftirvæntingu hjá þeim landsmönnum sem höfðu aðgang að dýrðinni. Þar var Guðmundur á meðal stjarna kvöldsins.



„Við hjónin tókum bæði þátt í fyrsta skaupinu,“ rifjar hann upp. Kveðst líka hafa leikið í sjónvarpsleikriti eftir Jón Dan sem hét Uppi á fjalli að kyssast. „Svo lék ég Daða í Skálholti Kambans og Sunna Borg lék Ragnheiði. Þar voru líka Gunnar Eyjólfsson, Valur Gíslason, Bríet Héðinsdóttir og fleiri kanónur.

Þjóðleikhúsið naut krafta Guðmundar

„Ég fylgdi eiginlega Sveini Einarssyni upp í Þjóðleikhúss og var þar á tímabundnum samningi í þrjú ár, sem var ansi gott þó kaupið væri ekkert hátt. Ég hafði nóg að gera.

En við Helga skildum á þessum tíma og ég sagði upp í Þjóðleikhúsinu til að fara til Frakklands. Fyrst í sumarskóla og um haustið vann ég við eplatínslu, fór svo til Parísar og komst þar í deild í Parísarháskóla þó ég væri ekki með stúdentspróf.

Þarna í París umgekkst ég mikið nokkra yndislega Íslendinga, Kristínu Jóhannesdóttur, Viðar Víkingsson, Pál Magnússon, Friðrik Pál Jónsson og fleiri.

Við þinghúsið í baráttu fyrir bættu aðgengi, sem formaður Öryrkjabandalagsins.Vísir/Valli
Síðan fór ég heim um vorið, blankur eins og kirkjurotta og réði mig til sjós á Þrym BA 7 frá Patreksfirði og ætlaði að verða ríkur, hafði verið kokkur á sjó og gengið vel, kokkar eru á einum og kvart hlut og það munar um það. En á Þrymi var sú staða ekki laus, hinsvegar vantaði 2. vélstjóra sem var líka staða upp á einn og kvart.

„Kallinn“ var yngri en ég. Á einhverjum tímapunkti var ákveðið að fara á grálúðuveiðar í tveggja vikna úthald og þá fjölgaði um borð. En kokkurinn stakk af suður með brennivínsbíl kortéri áður en við lögðum úr höfn og ég tók við hans stöðu. Hann var búinn að kaupa kostinn svo það var ekkert mál.

En við fiskuðum bara ekkert svo það var hætt eftir þessar tvær vikur og ég dreif mig suður og fékk þá vinnu í vélsmiðju. Þar var ég ekki nema í viku því ég var líka búinn að hafa samband við Bandalag íslenskra leikfélaga og ósk kom um námskeið hjá Skagaleikflokknum á Akranesi.

Það var mjög skemmtilegt og upp úr því var ákveðið að setja upp Púnitilla og Matta, heljar mikið verk með söngvum og öllu. Þarna eignaðist ég vini fyrir lífstíð. Við frumsýndum og allt tókst mjög vel. Eftir það var ég í viku í Reykjavík hjá foreldrum mínum áður en ég flaug til Parísar aftur til að njóta lífsins. En daginn eftir, 7. nóvember, á degi rússnesku byltingarinnar, slasaðist ég alvarlega þegar ég féll milli hæða í stóru húsi. Þetta var árið 1976 og hef verið hjólastólsbundinn síðan.“

Enn verr hefði farið, að sögn Guðmundar, ef einn af bestu sérfræðingum heimsins í mænuskaða hefði ekki verið að vinna á spítala, nánast í næsta húsi.  „Ég var mjög heppinn,“ segir hann.

„Svo var ég á Grensásdeild í ár en upp úr því fór ég út á land að leikstýra, fyrst hjá Leikfélagi Stafholtstungna. Þar var sett á svið verk sem breytt var úr Nakinn maður og annar í kjólfötum í Nakin kona og önnur í pels því það voru svo margar konur í leikhópnum. Sýningin tókst mjög vel, þarna var fanta gott lið.

Seinna um veturinn var ég í Búðardal og þar var frumsýnt leikrit um páskana en þá var ég búinn að fá nóg af að vera úti á landi því mikill snjór var þennan vetur og erfitt að komast um í hjólastól þó ég væri þá léttur og sprækur svo ég fór að búa til leiklistarnámskeið hér í bænum.“

Næst kveðst Guðmundur hafa sest á skólabekk. „Ég var bæði í dagskólanum og öldungadeildinni í MH og tók stúdentinn á þremur árum með hálfri vinnu hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra á símanum. Það var fínt.

Svo fór ég til Svíþjóðar að læra talmeinafræði, það gekk nú frekar brösuglega, ég hef aldrei verið mikill námsmaður. Þegar ég kom heim var ég samt ráðinn sem leiðbeinandi við Heyrnleysingjaskólann sem þá hét Vesturhlíðarskóli. En var líka í leiklistinni og við vorum þrír félagar í Sjálfsbjörgu sem stofnuðum Halaleikhópinn. Ég er stoltur af því.“

Guðmundur á eftir að segja mér frá vinnu sinni fyrir Öryrkjabandalagið, þingsetuna fyrir Vinstri græna og framboð sitt til Alþingis fyrir Alþýðufylkinguna í Suðvesturkjördæmi á síðasta ári, ásamt fleiru en það verður að bíða betri tíma.

Ég spyr hann að endingu hvort hann ætli að halda upp á sjötugsafmælið í dag.

„Ég hafði hugsað mér að verða sjötugur í kyrrþey en fékk það ekki fyrir þessum freku sonum mínum. Þorsteinn býr hér skammt frá mér og þangað ætla þeir að bjóða mér,“ svarar hann glaðlega og hlakkar greinilega til.

Bætir svo við: „Það má segja að ég eigi tvö afmæli á ári og held orðið meira upp á byltuafmælið en fæðingarafmælið. Því að lenda í hjólastól fyrir lífstíð voru veruleg tímamót. Í ár er 100 ára afmæli byltingarinnar en 41 árs afmælið mitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×