Lífið

Tónleikatúr og síðan maraþon

Elín Albertsdóttir skrifar
MYND/EYÞÓR
MYND/EYÞÓR
Einn okkar allra besti söngvari, Valdimar Guðmundsson, ferðast nú um landið ásamt Erni Eldjárn gítarleikara og treður upp á nokkrum stöðum þar sem hann hefur aldrei sungið áður.

Valdimar er með í farteskinu einlæga og hugljúfa dagskrá með alls kyns uppáhaldslögum þeirra félaga. Valdimar flytur tónlist sína með djúpri tilfinningu og seiðandi rödd, eins og hann er frægastur fyrir. Gestir tónleikanna fá örugglega  að heyra mörg vinsælustu laga hans eins og Yfirgefinn, Yfir borgina og Líttu sérhvert sólarlag. Sjálfur segist hann ætla að flytja lög sem hann hefur flutt í gegnum tíðina, bæði með eigin hljómsveit og öðrum. „Þetta verður Memphismafían, Bítlarnir, Abba, Radiohead og margt fleira. Þetta verður breiður pakki af músík. Ég er búinn að setja upp fimmtíu laga lista sem verður spilaður eftir því sem hentar. Það verða ekki alltaf sömu lögin á tónleikunum,“ segir hann og bætir við: „Mér finnst alltaf skemmtilegast þegar ég fæ gott hljóð og góða hlustun í salnum. En það er líka gaman þegar myndast notaleg stemming því lögin mín eru yfirleitt í rólegri kantinum.“

Skólabræður á ferðinni

Örn Eldjárn hefur oft leikið áður með Valdimar en einnig hefur hann unnið með Snorra Helgasyni, Tilbury, Brother Grass ásamt hljómsveitinni Valdimar. „Við höfum starfað mikið saman. Vorum samtímis að læra tónsmíðar í Listaháskólanum. Eftir útskrift byrjuðum við að vinna saman,“ segir Valdimar. „Við höfum komið fram á nokkrum stöðum á landinu en aldrei áður farið saman í tónleikatúr. Okkur hefur lengi langað til að fara rúnt um landið og taka lagið á skemmtilegum stöðum. Þar sem júlí var ekkert sérstaklega annasamur hjá okkur ákváðum við að leggja í hann núna,“ segir Valdimar. „Þannig að loksins ætlum við að kýla á þetta.“

Ferðalagið er byrjað. Þeir félagar voru á Rifi á miðvikudagskvöldið, á Drangsnesi í gærkvöldi og í kvöld koma þeir fram á Heimsenda á Patreksfirði. Á morgun er það Ísafjörður. Þar á eftir verður hann í heimabyggð, á Paddys í Keflavík. „Þar kom hljómsveitin Valdimar fyrst fram á sínum tíma,“ segir hann. Reykvíkingar geta séð hann á Rosenberg 13. júlí. „Þetta verður gott ferðalag. Mér finnst ótrúlega gaman að ferðast um landið. Frá því ég byrjaði að syngja hef ég ferðast mikið um landið. Hafði eiginlega ekki gert mér grein fyrir hversu lítið ég hafði ferðast áður. Eftir því sem maður eldist uppgötvar maður betur og betur hvað landið er fallegt og hefur upp á margt að bjóða. Það þarf ekki að keyra langt út úr borginni til að finna hreina og fallega náttúru. Ég fór stundum í tjaldútilegur með foreldrum mínum sem krakki en þá kunni maður ekki eins að meta þessa íslensku sveit,“ segir Valdimar.

Á gamlar slóðir



„Ég fór mjög oft til Hjalteyrar sem barn. Það er gaman að segja frá því að við verðum með tónleika þar 17. júlí í Gömlu síldarverksmiðjunni. Afi minn er frá Hjalteyri og ég á ættir að rekja þangað. Við förum sömuleiðis til Dalvíkur þangað sem Örn á ættir sínar að rekja en hann er úr Svarfaðardal en mikið af okkar tónlistarfólki kemur einmitt þaðan. Við sleppum því að koma fram á Akureyri og völdum frekar þessa minni staði. Við vonumst hins vegar til að sjá Akureyringa á Hjalteyri og Dalvík. Ég hlakka mikið til að halda tónleika í litla þorpinu sem ég þekkti svo vel sem krakki og þar lék ég mér á sumrin. Heimamenn eru yfirleitt duglegir að mæta á tónleika og einstaka ferðamaður lætur líka sjá sig,“ segir Valdimar þegar hann er spurður hverjir komi helst á svona tónleika. „Ég hef aldrei sungið fyrr á Hjalteyri, ekki heldur á Seyðisfirði og Vopnafirði en þar verðum við 20. og 21. júlí. Síðan verðum við á Borgarfirði eystri 22. júlí,“ bætir hann við en trúlega munu margir hrökkva við þegar þeir mæta poppstjörnunni á götu á þessum slóðum.

Valdimar segist ekki hafa gist í tjaldi frá því hann var unglingur. Þegar hann er spurður um útihátíðarreynslu, svarar hann: „Ég fór einu sinni á bindindismótið í Galtalæk sem unglingur og smyglaði áfengi með mér inn,“ segir hann og hlær. „Við vorum nokkrir saman sem smygluðum inn bjór og fundum okkur síðan stað þar sem var lítil gæsla. Ætli þetta hafi ekki verið fyrsta úti­hátíðin og með fyrstu fylliríunum,“ rifjar hann upp.

Aftur í maraþon

Dagleg rútína Valdimars þessa dagana er ræktin á morgnana. Hann vakti mikla athygli þegar hann tjáði sig heiðarlega á Facebook um þyngdarvanda sinn í október 2015. Hann breytti um lífsstíl og hefur haldið því markmiði sínu. Valdimar fékk áskorun í fyrra um að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hann stóð sig með prýði. Hann hefur ákveðið að vera með aftur þetta árið og taka 10 km hlaup. „Ég var maraþonmaðurinn í fyrra en í ár ætla ég að bæta tímann minn,“ segir hann. „Ég er miklu betur á mig kominn núna en í fyrra. Tilfinningin eftir hlaupið í fyrra var algjörlega frábær auk þess sem stemmingin í kringum maraþonið var mjög skemmtileg. Það er liðið eitt og hálft ár frá því ég hóf þessa lífsstílsbreytingu en síðan þá hef ég hreyft mig mikið og finn mikinn mun á mér. Ég er orkumeiri og léttari á mér. Ég vil vera skynsamur, engin boð og bönn, heldur að huga vel að mataræði og hreyfingu. Það skiptir máli fyrir heilsuna.“

Ný plata á leiðinni

Þegar hann er spurður hvað sé síðan á döfinni þegar tónleikatúrinn er að baki, svarar hann: „Ég hef ekki fengið nein símtöl út af verslunarmannahelginni en ég verð eitthvað að spila með hljómsveitinni minni. Eftir því sem líður á sumarið fara verkefnin að detta inn fyrir haustið. Ég er að vinna í músík og ég stefni á nýja plötu með hljómsveitinni Valdimar í lok árs og sömuleiðis er ég að vinna í sólóverkefni. Það er svo sem enginn gróði í að koma út plötu í dag en það er gaman að setja ný lög á markað,“ segir Valdimar sem hefur ekki tekið sumarfrí frá því hann byrjaði að vinna sem tónlistarmaður. „Ég er eiginlega alltaf í fríi og alltaf í vinnunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×