Erlent

Konurnar í Sílikon-dalnum rjúfa þögnina: Kynferðisleg áreitni valdamikilla karla hluti af kúltúrnum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Travis Kalanick, stofnandi Uber, sagði upp í júní í kjölfar bylgju hneykslismála þar sem kynferðisleg áreitni var fyrirferðarmikil.
Travis Kalanick, stofnandi Uber, sagði upp í júní í kjölfar bylgju hneykslismála þar sem kynferðisleg áreitni var fyrirferðarmikil. vísir/getty
Svo virðist sem að það sé að verða breyting í Sílikon-dalnum í Kaliforníu þar sem konurnar sem þar starfa eða hafa starfað þar rjúfa nú þögnina ein af annarri og segja frá kynferðislegri áreitni sem þær hafa orðið fyrir af hálfu yfirmanna sinna eða annarra valdamikilla karlmanna í dalnum.

Frásagnir kvennanna hafa orðið til þess að einhverjir þessara karla hafa verið reknir eða sjálfir sagt upp en á meðal þeirra eru valdamiklir fjárfestar sem kvenkyns frumkvöðlar hafa þurft að leita til eftir fjármagni.

Mörgum er eflaust í fersku minni bloggfærsla sem fyrrverandi starfsmaður Uber, Susan Fowler, birti í febrúar á þessu ári.

Fowler starfaði sem verkfræðingur hjá Uber í rúmt ár, frá nóvember 2015 til desember 2016, en í bloggfærslunni lýsti hún kynferðislegri áreitni sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hendi yfirmanns síns nánast allan tímann sem hún starfaði hjá fyrirtækinu.

Í kjölfarið á bloggfærslu Fowler stigu fleiri konur fram sem starfað höfðu hjá Uber og lýstu sams konar upplifun af kynferðislegri áreitni af hálfu samstarfsmanna og yfirmanna.

Fyrirtækið fékk þá utanaðkomandi aðila til að rannsaka ásakanirnar, þar á meðal Eric Holder, fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og leiddu niðurstöður rannsóknarinnar til þess að tuttugu starfsmenn Uber voru reknir frá fyrirtækinu.

Sílikon-dalurinn í Kaliforníu er höfuðborg tæknigeirans ef svo má að orði komast en höfuðstöðvar fyrirtækja á borð við Google, Apple og Facebook eru staðsettar í dalnum.vísir/getty
Karllægt starfsumhverfi og þaggað niður í konunum

Travis Kalanick, framkvæmdastjóri og stofnandi Uber, sagði svo af sér í júní eftir þrýsting frá hluthöfum en ásakanir um kynferðislega áreitni er ekki eina hneykslismálið sem komið hefur upp hjá fyrirtækinu síðustu mánuði.

Segja má að bloggfærsla Fowler og það hvernig tekið var á málinu hjá Uber sé einsdæmi hjá tæknifyrirtæki í Sílikon-dalnum og merki um að eitthvað sé að breytast. Löngum hefur verið vitað að starfsumhverfið í dalnum er afar karllægt og kynferðisleg áreitni valdamikilla karla í garð kvenna eins og hluti af menningunni.

Það hefur hins vegar verið þaggað niður í þeim konum sem leitað hafa til yfirmanna og stjórna tæknifyrirtækjanna og lýsti Fowler til að mynda því í bloggfærslu sinni hvernig illa hefði verið tekið í kvartanir hennar hjá Uber á sínum tíma. Það var ekki fyrr en hún steig fram opinberlega sem fyrirtækið gerði eitthvað.

Ellen Pao fór í mál við vinnuveitanda sinn og stefndi honum fyrir kynjamismunun. Hún tapaði málinu en ýmsir telja að málsóknin hafi orðið til þess að varpa ljósi á stöðu kvenna í tæknigeiranum.vísir/getty
Stefndi vinnuveitandanum fyrir mismunun

Fowler er þó ekki fyrsta konan sem stígur fram og segir frá kynjamismunun í Sílikon-dalnum. Ellen Pao stefndi vinnuveitanda sínum, áhættufjárfestingasjóðnum Kleiner Perkins, fyrir að mismuna henni á grundvelli kynferðis.

Málið kom til kasta dómstóla í febrúar 2015 og vakti gríðarlega athygli þar sem það þótti varpa ljósi á stöðu kvenna sem starfa í Sílikon-dalnum.

Það fór þó svo að Pao tapaði málinu en ýmsir telja að málsókn hennar hafi orðið til þess að opna umræðuna um kynjamisrétti í tæknigeiranum og þannig verið öðrum konum hvatning til þess að stíga fram. Til að mynda Susan Fowler, sem varð síðan enn öðrum konum hvatning til að segja frá reynslu sinni.

Dave McClure, stofnandi 500 Startups, var sakaður um kynferðislega áreitni af sex konum. Hann sagði upp hjá nýsköpunarmiðstöðinni í kjölfarið.vísir/epa
Var ekki viss um hvort hann ætti að ráða hana eða reyna við hana

Þannig stigu meira en tuttugu konur fram og ræddu við New York Times um kynferðislega áreitni og annað kynjamisrétti í Sílikon-dalnum en grein byggð á viðtölunum við þær birtist á vef dagblaðsins í liðinni viku.

Ein þeirra er frumkvöðullinn Sarah Kunst sem átti í samskiptum árið 2014 við Dave McClure, fjárfesti og stofnanda nýsköpunarmiðstöðvarinnar 500 Startups, vegna mögulegs starfs hjá miðstöðinni.

Í Facebook-skilaboðum sem McClure sendi Kunst á meðan á ráðningarferlinu stóð sagði hann við hana að hann væri ekki viss um hvort hann ætti að ráða hana í vinnu eða reyna við hana. Kunst gaf lítið fyrir þessi skilaboð McClure en lét samstarfsmann hann vita.

Hún heyrði svo ekki meira frá McClure en það er skemmst frá því að segja að hann sagði starfi sínu lausu hjá 500 Startups fyrir um mánuði síðan eftir að sex konur stigu fram og sökuðu hann um áreitni. McClure sendi svo frá sér afsökunarbeiðni undir yfirskriftinni „Ég er ógeð, fyrirgefið mér.“

Justin Caldbeck, fjárfestir, hefur viðurkennt að hafa áreitt konur í gegnum tíðina.youtube
Viðurkenndi að hafa áreitt konur og sagði upp í kjölfarið

Þá er í grein New York Times einnig fjallað um Justin Caldbeck sem starfað hefur hjá ýmsum áhættufjárfestingasjóðum í Sílikon-dalnum undanfarin ár.

Hann viðurkenndi í júní að hafa áreitt konur í tæknigeiranum kynferðislega eftir að nokkrar konu komu fram og sögðu frá samskiptum sínum við hann. Þá sagði hann upp starfi sínu hjá Binary Capital-sjóðnum en hann var einn af stofnendum fyrirtækisins.

Á meðal þeirra sem sögðu frá áreitni Caldbeck í sinn garð er Katrina Lake, stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Stitch Up.

„Kvenkyns frumkvöðlar eru mikilvægur hluti af Sílikon dalnum. Það er mikilvægt að afhjúpa þessa hegðun sem fjallað hefur verið um síðastliðnar vikur svo að við sem samfélag getum þekkt þessi vandamál og tekið á þau,“ sagði Lake. Leiðir hennar og Caldbeck lágu saman hjá Lightspeed fjárfestingasjóðnum sem fékk kvartanir vegna Caldbeck á meðan hann starfaði þar.

Frá ráðstefnu Google í Sílikon-dalnum á dögunum en tæknifyrirtækin sem starfa þar trekkja að fjölda ferðamanna á ári hverju en heimsþekkt vörumerki mörg hver.vísir/getty
Spurði af hverju kærastinn mætti kyssa hana en ekki hann

Þá sagði Lindsay Meyer, frumkvöðull í San Francisco, frá viðskiptum sínum við Caldbeck en hann lagði 25 þúsund dollara í nýsköpunarfyrirtæki hennar.

Það gaf honum ástæða til að senda henni stöðugt smáskilaboð þar sem hann spurði hana meðal annars hvort hún laðaðist að honum og hvers vegna hún vildi frekar kyssa kærastann sinn en hann. Þá kleip Caldbeck hana stundum og kyssti hana.

Hvort að fleiri konur í Sílikon-dalnum muni stíga fram á næstu misserum og hvort að fleiri karlar hverfi af sjónarsviðinu í kjölfarið verður að koma í ljós en flestir virðast að minnsta kosti líta svo á að eitthvað sé að breytast í menningunni í hinum karllæga tækni- og nýsköpunargeira.

Byggt á umfjöllun Quartz, The New York Times og Guardian.


Tengdar fréttir

Uber áfram til vandræða

Málefni leigubílaþjónustunnar hafa verið mikið til umræðu síðustu misseri eftir að Susan Fowler, fyrrverandi starfsmaður Uber, sakaði yfirmenn sína um kynferðislega áreitni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×