Íslenski boltinn

Fylkir komst á toppinn með sigri á Haukum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Helgi Sigurðsson er með Fylkisliðið á toppnum.
Helgi Sigurðsson er með Fylkisliðið á toppnum. vísir/andri marinó
Fylkismenn endurheimtu toppsætið í Inkasso-deildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið lagði Hauka, 2-0, á heimavelli sínum í Árbænum.

Það tók langan tíma fyrir Fylkismenn að brjóta ísinn en það gerði Valdimar Þór Ingimundarson með marki á 70. mínútu og Oddur Ingi Guðmundsson innsiglaði sigurinn með öðru markinu þremur mínútum fyrir leikslok.

Fylkir er nú á toppnum með 22 stig eftir tíu leiki en Keflavík er í öðru sæti með 21, stigi á undan Þrótti sem gerði 1-1 jafntefli við Selfoss á útivelli í kvöld.

Vilhjálmur Pálmason kom Þrótturum yfir á 36. mínútu með góðu marki úr teignum en skot hans eftir hornspyrnu rataði í netið.

Spánverjinn Ivan Martínez jafnaði metin fyrir heimamenn á markamínútunni, þeirri 43., með glæsilegu skoti úr teignum upp í þaknetið. Virkilega vel afgreitt. Lokatölur, 1-1, en Svavar Berg Jóhannsson var rekinn af velli á 82. mínútu í liði Selfyssinga.

Selfoss er í fimmta sæti deildarinnar með fimmtán stig eins og Þór og Fram eftir tíu umferðir en síðasti leikurinn í umferðinni fer fram á morgun þegar Leiknir F. tekur á móti ÍR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×