Erlent

Litlir sigrar Trump í Hamborg

Heimir Már Pétursson skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að leiðtogafundur tuttugu helstu iðnríkja heims hafi verið mjög árangursríkur, þótt fundurinn hafi staðfest einangrun Bandaríkjanna í loftlagsmálum. Töluvert var um óeirðir að loknum fundinum í Hamborg í gærkvöldi.

Tveggja daga leiðtogafundi G20, 19 helstu iðnríkja heims og Evrópusambandsins, lauk í Hamborg í Þýskalandi síðdegis í gær. Donald Trump Bandaríkjaforseti fór enn á ný gegn hefðum embættisins og ræddi ekki við fréttamenn að loknum fundinum, hvorki í Hamborg né eftir að hann kom heim til Washington.

Þá vakti undrun að meðan að forsetinn brá sér um tíma af fundi leiðtoganna í gær tók Ivanka dóttir hans sæti forsetans. Gagnrýnendur hafa bent á að hún sé ekki kjörin fulltrúi og hafi ekki með höndum formlegt embætti innan ríkisstjórnar Bandaríkjanna.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fagnaði því að loknum leiðtogafundinum í gær að leiðtogarnir allir að undanskyldum Bandaríkjaforseta skrifuðu undir yfirlýsingu fundarins í loftlagsmálum og hétu því að innleiða skuldbindingar Parísarsáttmálans eins fljótt og auðið væri.

Ekki víst að Tyrkir standi við sáttmálann

Hins vegar er sérafstöðu Bandaríkjastjórnar lýst í yfirlýsingunni um að Bandaríkin muni leitast við að vinna náið með öðrum ríkjum og hjálpa þeim að nálgast og nota jarðefnaeldsneyti á hreinlegri og árangursríkari hátt. Þá náði Trump vissum árangri varðandi eingrunarstefnu sína í alþjóðlegum viðskiptum, eða America First, þar sem leiðtogarnir samþykktu að ríki hefðu rétt til að verja markaði sína með löglegum viðskiptavörnum.

Trump tísti í gær að frábær árangur hefði náðst á G20 fundinum sem hafi verið frábærlega stjórnað af Angelu Merkel og þakkaði hann henni fyrir það. Það gæti hins vegar komið skarð í raðir leiðtoganna því eftir fundinn í Hamborg í gær sagði Recep Tayyp Erdogan, forseti Tyrklands, ekki víst að Tyrkir stæðu við Parísarsáttmálann sem tyrkneska þingið á eftir að staðfesta, þar sem brotthvarf Bandaríkjanna stefndi bótum sem þriðja heims ríkjum hafi verið lofað vegna loftlagsaðgerða í tvísýnu.

Töluvert var um róstur í Hamborg í gærkvöldi þar sem eftirlegukindur mótmæla gegn leiðtogafundinum fóru um borgina. Ölvun var töluvert áberandi og beitti lögregla kröftugum vatnsbyssum til að dreifa mannfjöldanum og handtók einhverja.


Tengdar fréttir

Vopnahlé í Suður-Sýrlandi tekið gildi

Vopnahléð, sem samkomulag náðist um fyrir tilstilli Rússa og Bandaríkjamanna, er enn ein tilraunin til að stilla til friðar í stríðinu í Sýrlandi sem geisað hefur í sex ár




Fleiri fréttir

Sjá meira


×