Erlent

Ku Klux Klan og mótmælendum lenti saman

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nokkrir meðlimir KKK voru klæddir í einkennisbúninginn.
Nokkrir meðlimir KKK voru klæddir í einkennisbúninginn. Vísir/AFP
Um 23 mótmælendur voru handteknir í kjölfar Ku Klux Klan-samkomu í Charlottesville í Virginiufylki í gær. Um 50 meðlimir samtakana voru þar saman komnir til að mótmæla niðurrifi styttu af þrælastríðsherforingjanum Robert E. Lee.

New York Times lýsir því að í um hálfa klukkustund hafi meðlimir KKK, sumir þeirra klæddir í hvítan einkennisklæðnað samtakanna, kallað „White Power“ meðan um þúsund mótmælendur grýttu þá með með vatnsflöskum og eplakjörnum.

Það hafi þó ekki verið fyrr en byrjaði að fækka í hópi Klanmanna sem hiti fór að færast í leikana.

Starfsmenn borgarinnar segja að fjöldi mótmælenda hafi fylgt meðlimum KKK að bílum sínum er þeir hugðust yfirgefa svæðið. Þegar mótmælendurnir neituðu að verða við skipunum lögreglu hafi hún ákveðið að flytja þá burt með valdi.

Þá hafi mótmælendur gripið til piparúða og lögreglan svarað með því að varpa þremur reyksprengjum að hópnum. Það hafi orðið til þess að hann leystist upp.

Talsmaður borgaryfirvalda segja að um 23 hafi verið handteknir og þrír fluttir á sjúkrahús. Einn hafi fengið áfengiseitrun og hinir tveir ofþornað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×