Erlent

Forsætisráðherra Íraks fagnaði sigri í Mósúl

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikil fagnaðarlæti brutust út í Mósúl í dag eftir að forsætisráðherra Íraks fagnaði sigri yfir ISIS.
Mikil fagnaðarlæti brutust út í Mósúl í dag eftir að forsætisráðherra Íraks fagnaði sigri yfir ISIS. Vísir/afp
Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, heimsótti borgina Mósúl í dag til að óska írökskum hersveitum til hamingju með „sigurinn“ á hryðjuverkasamtökunum ISIS þar í borg.

Í tilkynningu frá skrifstofu forsætisráðuneytisins sagði að Abadi væri staddur í Mósúl til að lýsa yfir fullri lausn borgarinnar úr ánauð ISIS.

Írakskir hermenn, studdir loftárásum Bandaríkjahers, hafa reynt að ná borginni aftur á sitt vald frá því um miðjan október á síðasta ári. Vígamenn ISIS lögðu undir sig borgina á einungis nokkrum dögum sumarið 2014 þaðan sem þeir héldu áfram sigurför sinni um gríðarstór landsvæði fyrir botni Miðjarðarhafs.

Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, heimsótti Mósúl í dag.Vísir/AFP
Forsætisráðherra Íraks mætti á staðinn í dag til að „óska hersveitum og íröksku þjóðinni til hamingju“ með fullnaðarsigur á ISIS í Mósúl. Hann hitti fyrir stjórnendur innan hersins en hefur ekki enn lýst sigrinum formlega yfir.

Samkvæmt frétt Reuters mun Abadi ekki senda þá yfirlýsingu frá sér fyrr en allir bardagamenn á vegum ISIS, sem enn eru eftir í Mósúl, verða farnir á brott.


Tengdar fréttir

Hefja „lokasókn“ gegn Ríki íslams í Mósúl

Stjórnarher Íraks hóf "lokasókn“ gegn Ríki íslams í gömlu borginni í Mósúl í dag. Hundrað þúsund íbúar eru innilokaðir vegna átakanna að sögn Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×