Íslenski boltinn

Úllen dúllen doff-dómgæsla í Grindavík | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Ársæll Guðmundsson, dómari, sneri aftur í Pepsi-deildina eftir fjórar umferðir í frystikistunni og dæmdi leik Grindavíkur og ÍBV í 8. umferðinni þar sem Grindavík vann enn einn sigurinn.

Guðmundur Ársæll hefur ekki dæmt í Pepsi-deildinni síðan í þriðju umferð þegar hann rak rangan mann út af í leik KA og Fjölnis.

Það verður seint sagt að Pepsi-mörkin hafi verið hrifin af endurkomu Guðmundar Ársæls sem gaf átta gul spjöld og eitt rautt sem var ansi harður dómur fyrir dýfu á Kaj Leo í Bartalsstovu, leikmann ÍBV.

„Verðum við ekki að ætlast til þess að dómgæslan sé betri en tilviljanakennd spjöld í leik þar sem í mesta lagi áttu að fara á loft tvö til þrjú gul spjöld,“ sagði Hörður Magnússon, stjórnandi Pepsi-markanna á Stöð 2 Sport HD í gærkvöldi.

„Það er sennilega rangt hjá þér að segja að þetta bitnaði á hvorugu liðinu því það bitnaði á Eyjaliðinu að missa Kaj Leo í leikbann og það bitnar klárlega á Grindavík að missa Brynjar Ásgeir í leikbann. Það skipti samt ekki sköpum um úrslit leiksins,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson og bætti við:

„Maður vill bara sjá einhverja línu. Mörg af þessum spjöldum áttu ekki rétt á sér en stundum grísaði hann á rétt.“

Hörður Magnússon sýndi svo hvernig Guðmundur Ársæll sá ekki augljósa hendi á Sam Hewson í aðdraganda þriðja marks leiksins sem Andri Rúnar Bjarnason skoraði.

„Þetta var svolítið úllen dúllen doff. Ég vil ekki vera leiðinlegur en þetta er bara ekki boðlegt,“ sagði Hörður Magnússon.

Alla umræðuna og atvikin má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×