Sport

Fyrrverandi leikmaður í NFL-deildinni skipulagði sjálfsmorð vegna kynhneigðar sinnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ryan O'Callaghan er sjöundi NFL-leikmaðurinn sem kemur út úr skápnum.
Ryan O'Callaghan er sjöundi NFL-leikmaðurinn sem kemur út úr skápnum. Vísir/Getty
Ryan O‘Callaghan, fyrrverandi leikmaður í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, er kominn út úr skápnum sem samkynhneigður karlmaður. Í viðtali við veftímaritið Outsports í dag sagðist O‘Callaghan alltaf hafa séð fyrir sér að þegar fótboltaferlinum lyki myndi hann fremja sjálfsvíg.

O‘Callaghan, sem nú er 33 ára gamall, gegndi stöðu línumanns í bandarísku fótboltaliðunum The New England Patriots árin 2006-2009 og Kansas City Chiefs á árunum 2009-2010. Í viðtali við vefsíðuna Outsports, sem einblínir á málefni hinsegin íþróttafólks, sagðist O‘Callaghan hafa verið í framhaldsskóla þegar hann áttað sig á því að hann væri samkynhneigður.

Í frétt BBC segir enn fremur að samkynhneigðin hafi verið O'Callaghan svo þungbær að hann hugðist fremja sjálfsmorð vegna hennar. Til þess hafði hann byggt kofa í grennd við heimili sitt og keypt byssur sem hann notaði blessunarlega aldrei.

Fótboltalið fullkominn felustaður

O'Callaghan sagðist jafnframt hafa falið kynhneigð sína af ótta við höfnun og sagði karllæga veröld ameríska fótboltans fullkominn felustað.

„Enginn er að fara að gera ráð fyrir því að stóri fótboltamaðurinn sé hommi,“ sagði hann. „Það er þess vegna sem fótboltalið er svona góður felustaður.“

O‘Callaghan glímdi lengi við íþróttameiðsli en hann varð í kjölfarið háður verkjalyfjum.

„Þau hjálpuðu til við sársaukann vegna meiðslanna og líka vegna sársaukans sem fylgdi því að vera samkynhneigður,“ tjáði O‘Callaghan blaðamanni Outsports.

Mjög fáir íþróttamenn í efstu deildum í Bandaríkjunum koma út úr skápnum. O‘Callaghan er aðeins sá sjöundi í röð fyrrverandi NFL-leikmanna sem opinberar samkynhneigð sína. Enginn þeirra hefur verið opinberlega samkynhneigður á meðan spilamennskunni í deildinni stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×