Skoðun

Látum þúsundkallana í friði!

Guðmundur Edgarsson skrifar
Gott er að fjármálaráðherra hafi hætt við atlöguna að þúsundköllunum. Almenningur og álitsgjafar höfðu nefnilega risið upp og mótmælt kröftuglega. Með því að hefta möguleika fólks á notkun reiðufjár í því skyni að uppræta skattsvik væri verið að þvinga æ fleiri til ævarandi viðskipta við fjármálafyrirtæki með tilheyrandi kostnaði og eftirliti ríkisins og skattayfirvalda með einkahögum fólks og neyslumynstri. Þá óttaðist fólk að verið væri að stíga fyrsta skrefið í átt til allsherjarbanns á reiðufé.

Á að banna prentaðar bækur?

Hugmyndir manna um að útrýma reiðufé til að draga úr skattsvikum eru álíka langsóttar og að banna prentaðar bækur til að vinna gegn brotum á höfundarrétti. Höfundarréttur yrði vissulega betur varinn ef bækur væru einungis aðgengilegar rafrænt á lesbrettum eins og Kindle enda nær ógerningur að ljósrita eða skanna. Slík sjónarmið vega hins vegar lítið miðað við rétt fólks til að lesa bók á því formi sem hentar og í boði er á markaði. Ekki væri hægt að lesa bók nema eiga tiltekið tæki og allur lestur yrði skráður skilmerkilega í gagnasöfnum rafbókaútgefenda og lesbrettaframleiðenda. Ef grunur vaknaði um að slíkar upplýsingar væru misnotaðar, t.d. af ríkinu, ættu bókaunnendur ekki í nein hús að venda. Nú er þó alltaf hægt að halda sig við prentuðu eintökin. Slíkt veitir vörn gagnvart ráðríkum stjórnmálamönnum. Með sama hætti veita peningaseðlar aðhald gagnvart hugsanlegu offari ríkisins í meðhöndlun upplýsinga og gerræðislegri skattheimtu.

Aðför að eignarrétti

Vissulega hentar oft vel að stunda viðskipti með rafrænum hætti en stundum kýs fólk milliliðalausar greiðslur með beinhörðum peningum. Þá má minna á að við vissar aðstæður treystir stór hópur fólks engum betur fyrir peningum sínum en sjálfu sér, t.d. þegar orðrómur kviknar um bankahrun. Peningar eru jú eins og hver önnur eign og fólk á því að fá að gæta þeirra og ráðstafa á því formi sem það sjálft kýs. Takmörkun á því er aðför að eignarrétti.

 

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×