Innlent

Kveiktu varðeld í Elliðaárdalnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Einn bíl þurfti að flytja af vettvangi með dráttarbíl, en meðal annars var ökumaður hans grunaður um að aka á skilti við hringtorg við Bauhaus.
Einn bíl þurfti að flytja af vettvangi með dráttarbíl, en meðal annars var ökumaður hans grunaður um að aka á skilti við hringtorg við Bauhaus. Vísir/Eyþór
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk í nótt tilkynningu um eld við Vatnsveituveg í Elliðaárdal. Þar höfðu tveir menn kveikt sér varðeld, en þeim var gert að slökkva hann þegar lögregluþjónar komu að þeim. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þá barst tilkynning um að maður væri að stela eldsneyti af vinnuvél við Hafravatnsveg. Sá sem tilkynnti þjófnaðinn reyndi að stöðva þjófinn. Sá brást við með því að keyra á bíl mannsins. Skráningarnúmer bíls þjófsins náðist og lögreglan segir málið í rannsókn.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni í nótt, grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Einn bíl þurfti að flytja af vettvangi með dráttarbíl, en meðal annars var ökumaður hans grunaður um að aka á skilti við hringtorg við Bauhaus. Hann var grunaður um akstur undir áhrifum lyfja og var vistaður í fangageymslu.

Annar ökumaður sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna er einnig grunaður um brot á vopnalögum.

Þar að auki handtók lögreglan mann í alvarlegu ástandi í verslun í Engihjalla og annar maður í Breiðholti var handtekinn fyrir meint heimilisofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×