Innlent

Eldur í mosa á Snæfellsnesi rakinn til logandi sígarettu

Atli Ísleifsson skrifar
Eldurinn logaði á um 1.500 fermetra svæði.
Eldurinn logaði á um 1.500 fermetra svæði. Umhverfisstofnun/Bjargey Ólafsdóttir
Eldur sem kviknaði í gær í mosa og lyngi við gömlu vermannagötuna sem liggur frá Sandhólum um Beruvíkurhraun í Dritvík er talinn hafa kviknað út frá logandi sígarettu.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar. Þar segir að eldurinn hafi logað á um 1.500 fermetra svæði og breiðst hratt um mosabreiðuna sem liggur um þrjú hundruð metra frá bílastæðinu hjá gönguleiðinni.

„Þjóðgarðsvörður, landverðir og sjálfboðaliðar Þjóðgarðsins brugðust skjótt við að hefta útbreiðslu eldsins og náðu að lokum að slökkva hann. Tók verkið um tvær klukkustundir og var svæðið vaktað fram að miðnætti.

Jón [Björnsson, þjóðgarðsvörður á Snæfellsnesi] er starfsmaður Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón með friðlýstum svæðum. Segir hann mikið happ að hann skyldi verða eldsins var svo skjótt, því eldurinn hefði að öðrum kosti breiðst mjög hratt út. Hann telur eldsupptök þau að reykingamaður hafi hent frá sér logandi sígarettu í skraufþurran mosann. Ekki hafi rignt í þjóðgarðinum í þrjár vikur og nærri hafi legið að mjög illa færi.

Þjóðgarðsvörður vill brýna fyrir gestum Þjóðgarðsins að fara varlega með eld. Henda alls ekki sígarettustubbum út í náttúruna heldur taka þá með sér. Auk eldhættu sé sóðaskapur af stubbum,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×