Innlent

Þrjár leiðir til að draga úr áhættu vegna fjárfestingastarfsemi bankanna

Höskuldur Kári Schram skrifar
Verulega hefur dregið úr fjárfestingastarfsemi viðskiptabankanna frá hruni samkvæmt nýrri skýrslu starfshóps fjármálaráðherra um málið. Ráðherra telur að skýrslan sýni að ekki sé nauðsynlegt aðskilja þessa starfsemi frá bönkunum til koma í veg fyrir meiriháttar áföll í framtíðinni.

Fjallað er um kosti og galli við aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingabankastarfsemi í skýrslu starfshóps fjármálaráðherra sem var birt í morgun. Margir telja að nauðsynlegt að aðskilja þessa hluti til að draga úr kerfisáhættu innan bankakerfisins og var starfshópnum gert að kanna leiðir í þessu samhengi.

„Fjárfestingastarfsemin í dag er mun minni en hún var fyrir hrun og það hafa komið fram sjónarmið erlendis um að það sé best að setja slíkri starfsemi skorður á meðan hún er lítil,“ segir Leifur Arnkell Skarphéðinsson formaður starfshópsins.

Hópurinn leggur til þrjár leiðir verði skoðaðar. Í fyrsta lagi að byggt verði á þeim laga- og reglugerðabreytingum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum. Í öðru í lagi að starfsemin verði aðskilin og í þriðja lagi að viðskiptabönkunum verði gert kleift að stunda fjárfestingastarfsemi upp að ákveðnu marki.

„Ég held að allir séu sammála um það meginmarkmiðið að minnka áhættuna í þessum rekstri og þá fyrir kerfið í heild. Það sem þessi skýrsla dregur vel í ljós er að það hefur margt verið gert nú þegar til þess að minnka þessa áhættu,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra.

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hefur kallað eftir algjörum aðskilnaði en segist tilbúin að skoða aðra kosti.

„Sem er annað hvort að setja ákveðið hámark á fjárfestingabankastarfsemi innan almennrar bankastarfsemi eða þá skoða að hafa þetta fullkomlega aðskilið eins og ég hef lagt til. Ég er mjög opin fyrir því að skoða hina leiðina en ég tel mikilvægt að einhvers konar aðgreiningu verði komið á,“ segir Katrín Jakobsdóttir formaður VG. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×