Erlent

Vilja minnka matarsóun um 50 prósent fyrir árið 2030

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Markmiðið er að minnka matarsóun um 50 prósent fyrir árið 2030.
Markmiðið er að minnka matarsóun um 50 prósent fyrir árið 2030. Vísir/Getty
Norsk stjórnvöld ætla sér að berjast á móti matarsóun. Markmiðið er að minnka matarsóun um 50 prósent fyrir árið 2030. Nefnd, skipuð samtökum iðnaðarins, verður skipuð til að reyna að finna út hvernig sé best að standa að þessu markmiði. VG greinir frá.

Vidar Helgesen umhverfisráðherra Noregs kynnti þessar fyriráætlanir á sunnudaginn á ráðstefnu EAT í Stokkhólmi. Fjörutíu og sex lönd taka þátt í ráðstefnunni þar sem rætt eru um heilsu og matvæli. Samkvæmt Helgesen munu stjórnvöld fara í samstarf með matvælaframleiðendum til að ná þessu verðuga markmiði. Helgesen bendir á að hver norðmaður hendi um 69 kg árlega af mat.

„Við skuldbindum okkur að minnka matarsóun um 50 prósent. Þetta er raunhæft en metnaðarfullt. Við munum vinna með allskyns samtökum og fyrirtækjum, allt frá landbúnaði og fiskeldi til matvöruverslana og hótelkeðja. Allir sem koma nálægt matvælaframleiðslu taka þátt,“ sagði Helgesen í ræðu sem hann flutti á ráðstefnunni.

Samningur milli stjórnvalda og matvælaframleiðanda verður undirritaður 23. júní næstkomandi af fimm ráðherrum og ellefu fulltrúum matvælaframleiðanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×