Innlent

Flug WOW air frá Miami féll niður vegna bilunar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
WOW air keypti í fyrra þrjár breiðþotur af gerðinni Airbus A330.
WOW air keypti í fyrra þrjár breiðþotur af gerðinni Airbus A330. Mynd/Aðsend
Flug WOW air númer 132 frá Miami til Keflavíkur sem fara átti eftir tæpan klukkutíma var fyrr í dag fellt niður vegna bilunar í einni af þremur Airbus 330-þotum flugfélagsins.

Alls áttu 317 farþegar bókað flug með WOW air frá Miami í dag. Farþegi sem hafði samband við fréttastofu vegna málsins fékk tilkynningu samdægurs um að flugið hefði verið fellt niður.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, er um að ræða minniháttar bilun.

„Þetta eru alls 317 farþegar og mest erlendir farþegar. Þeim stóðu til boða þrír möguleikar vegna þessa. Í fyrsta lagi að fá endurgreitt að fullu, og það eru flestir sem nýta sér það, í öðru lagi breyta um dagsetningu og fljúga síðar með okkur frá Miami og í þriðja lagi að fá inneign hjá WOW air,“ segir Svanhvít í samtali við Vísi.

Í apríl féllu ferðir WOW til og frá Miami niður vegna þess að ein af Airbus 330-þotum félagsins skemmdist mikið í óveðri hér heima á annan í páskum.


Tengdar fréttir

Þota WOW skemmdist og farþegar festust á Miami

"Við lentum í því óhappi að farangursvagn frá öðrum þjónustuaðila í Leifsstöð fauk á vél frá okkur og hún var óflughæf á eftir,“ segir Svana Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, um ástæðu þess að ferð flugfélagsins til Miami í Bandaríkjunum á mánudag, og heim daginn eftir féllu niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×