Innlent

Sextíu íbúðir fyrir eldri borgara

Sæunn Gísladóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús B. Brynjólfsson formaður Samtaka aldraðra undirrituðu viljayfirlýsingu.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús B. Brynjólfsson formaður Samtaka aldraðra undirrituðu viljayfirlýsingu. Mynd/Reykjavíkurborg
Samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var í gær mun Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra byggja 60 íbúðir fyrir eldri borgara á reit Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð.

Fram kemur í tilkynningu að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús B. Brynjólfsson, formaður Samtaka aldraðra, undirrituðu viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og samtakanna um að þau fái úthlutað lóð á skipulagsreitnum við Stakkahlíð fyrir fjölbýlishús með 60 íbúðum fyrir eldri borgara.

Úthlutunin er í samræmi við markmið húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar og aðalskipulags Reykjavíkur 2010 til 2030 þar sem kveðið er á um fjölbreytt framboð húsnæðiskosta, aukið framboð húsnæðis fyrir alla félagshópa og félagslega fjölbreytni innan hverfa og vilyrði Reykjavíkurborgar til Samtaka aldraðra frá apríl 2014.

Íbúðirnar verða litlar eða 40 til 60 fermetrar að stærð. Samtök aldraðra skuldbinda sig til að leita hagkvæmustu leiða í samningum við verktaka um byggingarframkvæmdir.

Verð byggingarréttar er 40 þúsund krónur á hvern byggðan fermetra ofanjarðar. Að auki greiðir félagið gatnagerðargjöld í samræmi við gjaldskrá Reykjavíkurborgar.

Hönnun íbúðarhúsnæðisins verður í samræmi við markmið húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar um fjölbreyttar húsagerðir, blöndun íbúðargerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða fyrir alla félagshópa.

Gildistími viljayfirlýsingarinnar er tvö ár frá undirritun hennar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×