Fótbolti

Dómarar fá leyfi til þess að flauta leiki af

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Baráttan við rasisma og almenna fordóma er endalaus.
Baráttan við rasisma og almenna fordóma er endalaus. vísir/getty
Í Álfukeppninni í sumar mun FIFA leyfa dómurum að flauta leiki af ef þeir verða vitni að einhvers konar fordómum hjá áhorfendum.

FIFA ætlar sér að uppræta fordóma úr fótboltanum og veit að til þess þarf róttækar aðgerðir.

„Þetta er mjög róttækar breytingar í þessari baráttu. Með því að gefa dómurum þetta vald vonumst við til þess að áhorfendur haldi sig frekar á mottunni,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA.

Ef dómari verður vitni að fordómafullri hegðun áhorfenda þá getur hann byrjað á því að stöðva leikinn og varað áhorfendur við. Ef ekkert breytist getur hann flautað leikinn af.

Ekki veitir af að fara í þetta átak fyrir HM sem fer fram í í Rússlandi næsta sumar en þar eru sífelld vandræði vegna fordómafullra áhorfenda. Álfukeppnin er einmitt haldin líka í Rússlandi í sumar og því ágætis prófraun fyrir HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×