Skoðun
Þórarinn ?Ingólfsson
formaður Félags íslenskra heimilislækna

1.500 heimilislæknar í Hörpu

Þórarinn Ingólfsson skrifar

Heilbrigðiskerfi heimsins standa frammi fyrir miklum áskorunum og eru ekki að uppfylla væntingar almennings. Það gætir óþolinmæði hjá almenningi þegar heilbrigðisþjónustan nær ekki markmiðum sínum. Flestir eru sammála um að heilbrigðiskerfin þurfi að bregðast við þessum áskorunum hraðar og betur. Alþjóðlegum heilbrigðisyfirvöldum og í nágrannaríkj­um okkar er mönnum orðið ljóst á síðustu árum að það er heilsugæslan sem á áhrifaríkastan hátt getur svarað þessum áskorunum.

Heilsugæslan annast fólk og læknar það, færir því hvatningu og hughreystir það og eflir á öruggan og árangursríkan hátt. Heilsugæslan veitir sína þjónustu á ytri mörkum heilbrigðiskerfisins og er tengiliður þess við ýmsa þjónustu, sjúkrahús og sérfræðinga. Heilsugæslan flokkar ekki fólk eftir sjúkdómsgreiningum, kyni eða aldri, allir eru velkomnir alltaf og það er réttur fólks að aðgangur að heilsugæslu sé óhindraður. Þetta er það sem liggur að baki þegar gerð er krafa um að heilsugæslan eigi að vera „fyrsti viðkomustaðurinn“.

Heimilislæknar hafa verið í fararbroddi þeirra lækna sem benda á að lausnir á áskorunum þeim sem við blasa á 21. öldinni felist ekki í nýrri tækni, fjarlækningum, nýjum „öppum“, eða straumlínulækningum. Hefja þarf til vegs og virðingar nálægð læknisins og annars vel þjálfaðs heilbrigðisstarfsfólks við sjúklingana. Forðast ber oflækningar og ofgreiningar hvers konar.

Í framlínunni verður aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki með mikla færni í sjúkdómsgreiningu að vera gott og skilningur á mikilvægi þess vanda sem fólk glímir við og hver viðeigandi úrræði eru. Fyrsta skylda læknisins er að valda ekki skaða í viðleitni sinni til að hjálpa. Þema ráðstefnunnar er „from the core“, eða frá hjarta læknisfræðinnar, þar sem læknisviðtalið og færni læknisins og traust til hans er nýtt til heilsueflingar og forvarna og til að bregðast við þegar heilsuvandi knýr dyra. Til þess að finna bestu lausnirnar fyrir hvern og einn verður að vera til staðar traust og þekking og gott aðgengi að heilsugæslu.

Nú stendur yfir í Hörpu ein stærsta læknaráðstefna sem haldin hefur verið á Íslandi. Um er að ræða norrænt þing heimilislækna sem haldið er annað hvert ár og skiptast Norðurlöndin 5 á að halda þingið. Íslenskir heimilislæknar hafa undirbúið ráðstefnuna nú og hafa veg og vanda af og er um met aðsókn að ræða. 1.450 heimilislæknar frá 27 mismunandi löndum hafa skráð sig til að skiptast á skoðunum og ráða ráðum sínum um framtíð heimilislækninga og heilsugæslu. Óhætt er að fullyrða að Norðurlöndunum hefur tekist vel að þróa heilsugæslu grunnstoð heilbrigðiskerfa sinna og horfa önnur lönd í Evrópu og víðar til Norðurlanda.
Áfram heilsugæslan!
 
Höfundur er formaður Félags íslenskra heimilislækna.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Ég kom en

Hjördís Björg Kristinsdóttir skrifar

Skoðun

Áfram jafnrétti!

Heiða Björg Hilmisdóttir, Kristín Soffía Jónsdóttir, Sabine Leskopf, Guðrún Ögmundsdóttir, Ragna Sigurðardóttir og Ellen Calmon skrifar

Sjá meira