Innlent

Burðardýr í steininn fyrir innflutning á kílói af kókaíni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Um enn eitt málið er að ræða þar sem burðardýr fá fangelsisdóma en skipuleggjendur sleppa með skrekkinn.
Um enn eitt málið er að ræða þar sem burðardýr fá fangelsisdóma en skipuleggjendur sleppa með skrekkinn. Vísir/Getty
Karlmaður frá Brasilíu hefur verið dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir að hafa flutt tæplega kíló af sterku kókaíni til landsins þann 31. mars síðastliðinn. Fíkniefnin flutti hann til landsins frá Hollandi til Keflavíkurflugvallar en þau voru falin í fölskum botni í ferðatösku hans.

Maðurinn játaði brot sitt og var við ákvörðun refsingarinnar horft til þess. Sömuleiðis að ekkert benti til annars en að hann hefði verið burðardýr og ekki komið að skipulagningu innflutningsins.

Þá veitti hann lögreglu liðsinni við að upplýsa málið þegar hann var handtekinn. Til frádráttar átján mánaða refsingunni kemur gæsluvarðhald sem hann var í frá 1. apríl og þangað til dómurinn var kveðinn upp í gær, 14. júní í Héraðsdómi Reykjaness.

Kókaínið, sem var 87% að styrkleika, var gert upptækt og þarf maðurinn að greiða 1,3 milljónir króna í sakarkostnað. 

Þá var hollenskur ríkisborgara dæmdur í sex mánaða fangelsi á þriðjudag fyrir að hafa reynt að flytja um 250 grömm af kókaíni, 63% að styrkleika, til landsins þann 14. apríl. Efnin voru falin í fjörutíu pökkum innvortis. Játaði hann brot sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×