Innlent

Stofn landsela hrunið úr 33 þúsund dýrum í 8000

Gissur Sigurðsson skrifar
Stofn landsela hefur hrunið úr 33 þúsund dýrum árið 1980 niður í 8000 dýr núna, eða um 80 prósent. Stofninn er nú langt innan við markmið stjórnvalda um stærð hans og verður að grípa til aðgerða honum til verndar að sögn vísindamanna.

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknarstofnun, hefur látið sig málefni landselsins varða. Hann segir að upphaflega fækkun hafi mátt rekja til beinna veiða mannsins en áður fyrr var greitt fyrir hvern sel.

„Eftir að því var hætt þá hafa talningar sýnt að stofninn er áfram að minnka og er nú í einungis um 8000 dýrum. Skýringarnar á þessu eru í sjálfu sér ekki vel þekktar,“ segir Þorsteinn sem telur þó að fyrir þessu séu þrjár mögulegar skýringar.

„Í fyrsta lagi vegna hugsanlegra breytinga á útbreiðslu fæðu. Það gæti þýtt að fæðuframboð er minna og því náttúrulega afföll í stofninum meiri. Svo er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að hjáveiðar, sérstaklega netaveiðar, geta haft töluverð áhrif. Auk þess sem skotveiðar eru stundaðar, sérstaklega í árósum, en upplýsingar um umfang þeirra veiða, sem og við hjáveiðar, ákaflega illa þekktar og mikill skortur á réttum tölum,“ reifar Þorsteinn.

Hann segir að stjórnvöld hafi sett sér markmið árið 2006 sem kveða á um að stofninum sé reynt að halda í um 12 þúsund dýrum. Þá skildi einnig grípa til aðgerða færi stofninn undir þau mörk.

„Nú er hann kominn undir þau mörk og við í okkar ráðgjöf erum að benda stjórnvöldum á að nú þurfum við að eiga samtal um aðgerðir til að draga úr þessari fækkun sem á sér staða og reyna að snúa þessari stofnþróun við.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×