Innlent

Stefnir í harða deilu milli Félagsstofnunar stúdenta og Minjastofnunar vegna nýbygginga á háskólasvæðinu

Minjastofnun leggst alfarið gegn því að hugmyndir Félagsstofnunar stúdenta um byggingu við hlið Gamla Garðs á háskólalóðinni verði að veruleika. Byggingin muni skyggja á og raska einstæðri og mikilvægri skipulagsheild með óafturkræfum hætti. Félagsstofnun segir Minjavernd ekki hafa lögsögu í málinu enda sé Gamli Garður ekki friðaður.

Félagsstofnun stúdenta hefur áform um að byggja nýja stúdentagarða austan við Gamla garð, elstu byggingu háskólalóðarinnar,  sem Minjastofnun er ekki ánægð með.

„Það var leitað eftir áliti okkar í tengslum við undirbúning deiliskipulags fyrir þessa lóð í tengslum við samkeppni sem hér var haldin. Og, já það er rétt að við höfum gert mjög alvarlegar athugasemdir við þessi áform,“ segir Pétur Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri umhverfis-og skipulagssviðs Minjastofnunar.

 

„Eitthvað glæsilegasta dæmi sem íslenska þjóðin á um heilsteypt og fagurfræðilega mótað skipulag“

Með byggingu garðanna muni framhlið Gamla Garðs nánast hverfa og við það raskist mikilvæg og einstæð skipulagsheild í borgarmynd Reykjavíkur. Uppbygging á lóðinni feli í sér veruleg og neikvæð áhrif þar sem listrænt mikilvægri skipulagsheild yrði raskað með óafturkræfum hætti.

Aðalbygging Háskólans og allt skipulag svæðisins fyrir framan hana sé eitt af merkustu verkum Guðjóns Samúelssonar. Þá sé framhliðin á Gamla Garði, sem Sigurður Guðmundsson teiknaði,  eitt af andlitum svæðisins.

„Og Þjóðminjasafns-byggingin sem er morgungjöf Alþingis til íslensku þjóðarinnar er teiknuð af sama arkitekt og hönnuð með það í huga að þessar tvær byggingar myndi fagurfræðilega heild. Þannig að þetta er eitthvað glæsilegasta dæmi sem íslenska þjóðin á um heilsteypt og fagurfræðilega mótað skipulag,“ segir Pétur.

Gamli Garður hvorki friðaður né umsagnaskyldur

Upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta segir að samkomulag við borgina um uppbyggingu á svæðinu og þar með þessari lóð hafi verið undirritað í mars í fyrra. Síðan hafi farið fram samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um hönnun byggingar á lóðinni með vitneskju Háskólans og borgarinnar og vinningstillagan kynnt í apríl síðastliðnum.

„Við teljum að þessi bygging falli mjög vel að þessu umhverfi og það var mikil ánægja með þær niðurstöður sem við fengum,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta.

Nú er Minjastofnun áhrifarík í þessum efnum, það setur væntanlega strik í reikninginn ef hún leggst alfarið gegn byggingaráformum á þessari lóð?  

„Við teljum að svo eigi ekki að vera. Því Gamli Garður er hvorki friðaður né umsagnaskyldur af hálfu Minjastofnunar. Þannig að við áttum okkur ekki á að þetta eigi að falla á einhvern hátt undir Minjastofnun,“ segir Rebekka.

 

Alvar Alto, einn frægasti arkitekt heims,  teiknaði Norræna húsið með tilliti til hvernig húsið nyti sín í því umhverfi sem það er.

„Þessi uppbygging hefur áhrif á ásýnd tveggja friðlýstra bygginga, aðalbyggingar Háskólans og Norræna hússins og okkur er skylt að fjalla um og gæta hagsmuna þess,“ segir Pétur.

„Í lýsingu á samkeppninni sem var gerð var einmitt gert ráð fyrir og horft til þess að byggingin myndi ekki skyggja á aðalbygginguna og húsin hér í kring. Og við teljum að það sé í algeru lágmarki,“ segir Rebekka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×