Handbolti

Ég hef bætt mig mikið á þessu ári

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Janus Daði verður í stóru hlutverki hjá landsliðinu í næstu leikjum rétt eins og hjá Álaborg.
Janus Daði verður í stóru hlutverki hjá landsliðinu í næstu leikjum rétt eins og hjá Álaborg. vísir/ernir
Strákarnir okkar æfa nú af kappi fyrir æfingamót í Noregi sem fer fram 8. til 11. júní. Flesta sterkustu leikmenn liðsins vantar í þetta verkefni og því gullið tækifæri fyrir marga aðra að láta ljós sitt skína.

Janus Daði Smárason fékk stóra tækifærið á HM í janúar og hefur spilað reglulega síðan. Hann fór til Álaborgar eftir HM og varð danskur meistari með félaginu á dögunum. Janus sér ekki eftir því að hafa farið til Danmerkur.

Var tilbúinn í atvinnumennsku

„Mér fannst ég vera tilbúinn og geta haldið áfram að bæta mig. Mér finnst ég hafa bætt mig mikið á þessu ári,“ segir Janus Daði en hann fékk mikið traust hjá þjálfara sínum í Álaborg, Aroni Kristjánssyni, og spilaði mikið.

„Það var æðislegt. Ég er að spila með og keppa á móti mönnum sem eru betri en ég hef verið að mæta áður og það hjálpar mér að taka skrefin fram á við. Það var gaman að taka þátt í þessu ævintýri. Þetta var líklega eitt af því skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég er svo ungur. Ég hef ekki upplifað neitt.“

Meistari á hverju ári

Þetta er þriðja árið í röð sem Janus Daði verður landsmeistari en hann var meistari með Haukum tvö ár á undan. „Ég er heppinn að vera alltaf í svona góðum liðum,“ segir Janus kíminn en hann fær að spila í Meistaradeildinni næsta vetur og fær örugglega enn stærra hlutverk í liðinu.

Hann fór í stutt frí til Selfoss áður en hann mætti aftur í slaginn með landsliðinu.

„Það er gott að komast aftur í gang og klára svo sumarið á því að tryggja okkur inn á EM. Við erum staðráðnir í því. Þetta mót í Noregi verður skemmtilegt. Öll liðin sakna lykilmanna. Það verður gaman að fá meiri ábyrgð og svo gaman fyrir peyjana sem eiga skilið að fá tækifæri,“ segir Janus en í kjölfarið eru það síðustu tveir leikirnir í undankeppni EM og þar er mikið undir.

„Við förum í þá leiki til að vinna og ég held að við gerum það. Það er ekkert annað í boði.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×