Handbolti

„Erum að reyna að búa til fleiri landsliðsmenn“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska karlalandsliðið í handbolta heldur út til Noregs á morgun þar sem það tekur þátt í Gjensidige Cup, fjögurra liða æfingamóti.

Ísland mætir Noregi á fimmtudaginn, Póllandi á föstudaginn og Svíþjóð á sunnudaginn.

Marga lykilmenn vantar í íslenska liðið og yngri og óreyndari leikmenn fá því tækifæri til að láta ljós sitt skína.

„Við viljum sjá framfarir og leikmenn, sem hafa haft minni ábyrgð, stíga upp. Þetta er ákveðin þróun,“ sagði landsliðsþjálfarinn Geir Sveinsson í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Við erum að reyna að stækka hópinn, búa til fleiri landsliðsmenn og auka samkeppnina. Ég tel okkur hafa ágætis framboð af leikmönnum og svo er bara að sjá hvernig þeir standa sig á stóra sviðinu.“

Sigvaldi Guðjónsson er nýliði í íslenska landsliðinu.vísir/ernir
Íslendingar eru miklu harðari

Ýmir Örn Gíslason, leikmaður Vals, og Sigvaldi Guðjónsson, leikmaður Århus, eru meðal nýliða í íslenska hópnum.

„Ég verð að nýta tækifærið, það er bara þannig. Ég er meira en klár,“ sagði Ýmir sem varð Íslandsmeistari með Val í vor.

„Ég er mjög spenntur. Þetta verður frábært mót. Ég bjóst kannski við þessu en var að vonast eftir því.“

Sigvaldi, sem er örvhentur hornamaður, var að vonum ánægður þegar kallið í landsliðið kom.

„Þetta er mjög fínt. Þetta er draumur að rætast,“ sagði Sigvaldi sem flutti til Danmerkur fyrir 12 árum.

„Ég orðinn aðeins meira danskur en íslenskur. En þetta er alltaf í hjartanu. Ég ætla að reyna gera mitt besta og sýna mig. Mér finnst munur á íslenska og danska hugarfarinu. Íslendingar eru miklu harðari.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×