Skoðun

Varúð: Kona undir stýri!

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Fyrir skömmu var hópur íslamskra ferðamanna sóttur í Leifsstöð. Allt voru ferðalangarnir karlmenn. Hópurinn var sóttur á flugvöllinn og keyrður í Bláa lónið. Eftir þá sundferð var keyrt til Reykjavíkur þar sem rútubílstjórinn skilaði farþegunum heilu og höldnu á hótel. En þá kom babb í bátinn. Þótt ekkert hefði verið að ökulagi rútubílstjórans gátu ferðalangarnir umræddu ekki lengur við unað. Hvers vegna? Jú, rútubílstjórinn var kona! Fararstjóri umrædds hóps sá sig því knúinn til að hafa samband við erlendu ferðaskrifstofuna sem hafði selt þeim ferðina. Úr varð að hópurinn fékk nýjan rútubílstjóra: Karlmann!

Hafandi verið í rekstri eins og aðrar FKA-konur hafa flestar, ætla ég ekki að segja að ég skilji ekki viðbrögðin. Þjónustuaðilar eiga það einmitt flestir eitt sameiginlegt og það er að viðskiptavinurinn er sá sem hefur rétt fyrir sér. Sem sölu- og þjónustuaðili í gegnum tíðina kannast ég því við mörg tilvikin þar sem bregðast þarf við athugasemdum viðskiptavina eins fljótt og vel og auðið er.

En hérna þurfum við aðeins að staldra við. Þannig gildir það fyrir ferðamenn að hér ríkja ákveðnar reglur og menning sem þeir eru að sækja heim. Erlendir ferðamenn eru líka að sækja heim stolta þjóð. Hluti af þessu stolti er að segja frá því og sýna í verki hvar við stöndum í jafnréttismálum. Þannig hafa íslenskar konur löngum verið mjög virkar á vinnumarkaði. Þúsundir íslenskra kvenna standa líka fyrir sínum eigin rekstri og atvinnusköpun um land allt og í öllum atvinnugreinum.

Þá höfum við sýnt fordæmi í ýmsu. Ég nefni sérstaklega kynjakvótalögin 2013 og Jafnlaunavottunina sem Alþingi samþykkti á dögunum. Allt eru þetta atriði sem endurspegla það hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Í þessu tilviki tel ég því að við hefðum hreinlega átt að segja „nei“ við viðskiptavininn. Skýra það frekar út fyrir hópnum hvernig menning okkar er. Benda þeim á að út ferðina yrði hópurinn þjónustaður af bæði konum og körlum. Hvar sem er og hvenær sem er. Sem auðvitað þýðir að við konurnar keyrum líka rútur!

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgririti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×