Handbolti

Íslendingaflótti frá þýska liðinu Aue | Árni Þór á heimleið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Árni Þór Sigtryggsson
Árni Þór Sigtryggsson Mynd/http://www.ehv-aue.org
EHV Aue verður ekki lengur Íslendingalið á næstu leiktíð í þýska handboltanum. Þrír Íslendingar hafa yfirgefið félagið á síðustu vikum.

EHV Aue tilkynnti á heimasíðu sinni að Árni Þór Sigtryggsson væri á leiðinni heim til Íslands en áður hafði Sigtryggur Daði Rúnarsson samið við þýska liðið Balingen og Bjarki Már Gunnarsson gert samning við Stjörnuna.

Í frétt á heimasíðu EHV Aue er sagt að tími Íslendinganna hjá félaginu sé að enda í sumar en það er sérstakt að sjá þetta mikla Íslendingalið missa öll íslensku áhrifin í einu.

Rúnar Sigtryggsson var þjálfari Aue-liðsins frá 2012 til 2016 og fékk þá alla þrjá til liðsins. Sigtryggur Daði, sonur Rúnars kemur nú til pabba síns hjá Balingen en yngri bróðir Rúnars fer heim til Íslands.

Árni Þór Sigtryggsson hefur spilað með Aue frá 2013 og á að baki 135 leiki og 434 mörk. Hann kom til liðsins frá TSG Friesenheim.

Árni Þór og Sigtryggur Daði hafa báðir skorað yfir hundrað mörk fyrir Aue á þessu tímabili og missirinn er því mikill fyrir liðið. Sigtryggur Daði er með 128 mörk og 59 prósent skotnýtingu en Árni hefur skorað 103 mörk og nýtt 47 prósent skota sinna.

Árni Þór mun spila sinn síðasta heimaleik með Aue á laugardaginn á móti ASV Hamm-Westfalen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×