Lífið

Fyrsta Lip Sync keppnin á Íslandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Skemmtileg dagskrá framundan.
Skemmtileg dagskrá framundan.
Leikhópurinn Kriðpleir mætir Gunnari Hanssyni og Eddu Björg Eyjólfsdóttur í æsispennandi keppni í varasöng í Tjarnarbíói miðvikudaginn 7. júní, en slíkar keppnir eru betur þekktar undir heitinu Lip Sync Battle. Keppnin hefst klukkan 20:00 og er upphitun fyrir dag rauða nefsins sem verður á RÚV föstudaginn 9. júní. Það er ástralski leikarinn, grínistinn og kabarettskemmtikrafturinn Jonathan Duffy sem stendur að viðburðinum ásamt Tjarnarbíó.

Bæði lið hafa æft stíft síðustu daga og freista þess að sanna yfirburði sína fyrir landi og þjóð. Keppnin verður án efa hnífjöfn enda er þjálfari keppenda hin hæfileikaríka Margrét Erla Maack. Dómarar verða Páll Óskar, Salka Sól og Hera Björk, en þau munu leggja mat á söng liðanna sem og sviðsframkomu.

Sérstakur gestur verður dragdrottning Íslands, Gogo Starr, sem mun sýna liðunum hvernig fagmennirnir fara að þessu. Kynnir kvöldsins verður Jonathan Duffy. Hægt er að nálgast miða í Tjarnabíói.

Keppnin er liður í undirbúningi dags rauða nefsins sem er langstærsti viðburður UNICEF á Íslandi. Átakið nær hámarki í beinni útsendingu á RÚV föstudaginn 9. júní þar sem landslið leikara, grínista, tónlistarmanna og fjölmiðlafólks býr til ógleymanlegt kvöld og skorar á áhorfendur að hjálpa börnum og gerast heimsforeldrar UNICEF.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×