Enski boltinn

Sá dýrasti í pundum en ekki sá dýrasti í evrum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ederson.
Ederson. Vísir/Getty
Manchester City gerði í dag brasilíska markvörðinn Ederson Moraes að dýrasta markverði allra tíma en hann er samt ekki sá dýrasti í öllum gjaldmiðlum.

Manchester City kaupir Ederson á 35 milljónir punda frá portúgalska liðinu Benfica eða á 4,5 milljarða íslenskra króna.

Gianluigi Buffon var áður dýrasti leikmaður heims í pundum talið en Juventus borgaði Parma 32,6 milljónir punda fyrir hann árið 2001.

Pundið er svo veikt gagnvart evrunni í dag að Ederson nær ekki að slá metið hans Buffon í evrum. Kaupverð Juventus á Buffon fyrir sextán árum var á þeim tíma 53 milljónir evra.

35 milljónir punda í dag eru hinsvegar aðeins virði 40 milljóna evra í dag.  BBC segir frá.

Það er því hægt að kalla bæði Ederson og Gianluigi Buffon dýrustu markverði heims fer bara eftir því hvorum megin Ermasundsins þú er staddur.

Miklar væntingar eru bundnar við Ederson sem þykir einn allra efnilegasti markvörður heims. Það væri ekki slæmt fyrir City ef kaupin á honum borguðu sig eins og kaup Juventus á Gianluigi Buffon árið 2001.

Hinn 23 ára gamli Ederson vann tvöfalt með Benfica á þessu tímabili en enginn markvörður portúgölsku deildarinnar hélt oftar marki sínu hreinu. Hann hélt 18 sinnum hreinu í 27 leikjum og fékk bara 12 mörk á sig.

Ederson hefur ekki spilað landsleik fyrir Brasilíu en er í hópi liðsins í vináttulandsleikjum á móti Argentínu á föstudaginn og Ástralíu á þriðjudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×