Lífið

Fer ótrauð sínar eigin leiðir

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Unnur Snorradóttir vekur athygli hvar sem hún fer fyrir glæsileika og flottan, sjálfstæðan stíl.
Unnur Snorradóttir vekur athygli hvar sem hún fer fyrir glæsileika og flottan, sjálfstæðan stíl. MYNDIR/ÚR EINKASAFNI
Á meðan Unnur Snorradóttir og kærasti hennar biðu vina sinna til að fara í bíó ákváðu þau að snoða Unni. Hún kann því einkar vel að vera snoðklippt.

„Ég klippti mig stutthærða í Berlín fyrir tveimur árum vegna þess að mig langaði að breyta til. Nokkrum mánuðum síðar snoðaði kærastinn mig á meðan við biðum eftir því að vinir okkar kæmu að sækja okkur til að fara í bíó,“ segir Unnur sem hefur verið meira og minna snoðuð síðan. „Akkúrat núna er ég með svokallaða Pixie-klippingu, en ég kann mjög vel við að vera snoðuð og má segja að ég fái alltaf mikla athygli vegna þess,“ segir hún, en athyglin er bæði góð og slæm.

„Flestir hæla mér fyrir kollinn en svo er alltaf einn og einn sem spyr: „Ertu með krabbamein?“ eða annað álíka, sem er í raun skondin spurning í ljósi þess að ég fékk hana fyrst þegar ég var nýbúin að eyða pening í að láta raka mynstur í allan kollinn,“ segir Unnur og brosir að minningunni.





Unnur hannar meðal annars eyrnalokka sem fara yfir eyrun líkt og þekkist sem skraut við indverskan sari-klæðnað.
Unnur útskrifaðist af listabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti um síðustu jól og flutti nýverið til Noregs með kærasta sínum.

„Við vorum orðin leið á því að vera alltaf blankir miðbæingar og ákváðum að fara utan til að víkka sjóndeildarhringinn og safna pening fyrir háskólanámi. Ég stefni á nám í fatahönnun og er þessa dagana að lesa mér til um skóla í ýmsum borgum Evrópu. Frakkland togar óneitanlega mest í mig en þrátt fyrir það eiga plön mín það til að breytast.“

 

Unnur hannar og saumar skyrtur og töskur og segist skæð við að breyta fötunum sínum.
Ekki alveg laus við þrældóminn

Fatasmekkur Unnar breytist með veðri og vindum.

„Ég hef skilning á því að við leitumst við að búa okkur til prófíl sem segir „þetta er ég“ og göngum í fötum sem okkur finnst lýsandi fyrir okkur, en ég held ekki að nokkur ætti að taka sig svo alvarlega að geta ekki farið út í búð í íþróttabuxum án þess að líða vandræðalega. Sjálfri finnst mér gaman að ganga um í kjólum með eyrnalokka og eyeliner en stundum líður manni ekki þannig eða hefur ekki tíma og hoppar þá bara í gallabuxur og hljómsveitabol til að byrja daginn.“

Og Unnur hefur vissulega sinn eigin fatastíl.

„Helst vil ég kaupa fötin mín af smærri fatahönnuðum sem ég lít upp til, eins og stelpnanna í Kiosk, Ýrúrarí og Aftur, svo eitthvað sé nefnt, eða kaupa notuð föt í Hjálpræðishernum, Rauða krossinum eða Spúútnik. Ég hef mikla óbeit á gífurlegri neysluhyggjunni sem öllu tröllríður, þar sem fólk kaupir mikið af fatnaði í lélegum gæðum fyrir lítinn pening og sem búinn er til af litlum börnum í ömurlegum aðstæðum sem menga jörðina. Þá getur maður alveg eins safnað sér fyrir flík sem endist lengi og er falleg. Þrátt fyrir það er fataskápurinn minn ekki alveg laus við þrældóm – H&M-sokkar og svoleiðis.“



Myndlist hefur hingað til verið ástríða Unnar en hún stefnir nú á nám í fatahönnun.
Daglegur dónaskapur

Myndlist hefur hingað til átt hug og hjarta Unnar og í október setti hún upp sýninguna „Dýrt, Nýtt og Hvítt“ í félagi við vini sína í listaheiminum, þar sem listaverk voru verðlögð á margar milljónir.

„Í augnablikinu er ég með tvær skissubækur; aðra fyrir daglegan dónaskap sem mér dettur í hug og hina eingöngu fyrir tísku. Ég hef hannað og saumað töskur og skyrtur og svo er ég skæð í að breyta fötunum mínum. Samt sem áður hef ég verið meira í hönnun skartgripa og byrjaði mjög ung að fikra mig áfram þar. Ég hef selt eyrnalokka sem fara yfir eyrun, líkt og tíðkast sem skraut með indverskum sari-klæðnaði, en einnig logsoðið og steypt skart í brons.“



Unnur vill helst kaupa fatnað sinn af smærri fatahönnuðum en segist enn vera sek um að eiga H&M-sokka og fleira úr fjöldaframleiðslunni.
Unnur leikur í nýlegu tónlistarmyndbandi við lagið BTO með hljómsveitinni VÖK sem verður með útgáfutónleika í Gamla bíói í kvöld. Hvernig kom það til?

„Einar í VÖK hafði séð mig í myndbandi hljómsveitarinnar Une Misére og síðan hittumst við á Eistnaflugi. Hann var í leit að snoðaðri stelpu fyrir þetta tiltekna myndband og hugsaði til mín. Það er mjög skemmtileg lífsreynsla að leika í tónlistarmyndböndum en þessi tvö eru mjög ólík. Hið fyrra var mjög spontant og frjálst, tekið upp á klukkutíma, en myndbandið fyrir VÖK var skipulagt í þaula og tekið upp á tveimur dögum með þrettán manna tökuliði.“

Hér má sjá myndbandið þar sem Unnur er í aðalhlutverki fyrir VÖK. Og hér er myndbandið sem Unnur lék í fyrir Une Misére.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×