Skoðun

Rauð nef skipta máli

Sigríður Víðis Jónsdóttir skrifar
Dagur rauða nefsins er í dag! Rauða nefið táknar gleði og hlátur, nokkuð sem ætti að vera stór hluti af lífi allra barna – en er það því miður alltof oft ekki.

Með því að setja upp #rauttnef lýsir fólk yfir stuðningi við réttindi barna á heimsvísu og deilir þeirri sannfæringu að öll börn eigi rétt á góðu og hamingjuríku lífi, hvar í heiminum sem þau kunna að hafa fæðst. Með hjálp UNICEF og heimsforeldra hafa ótal börn um allan heim fengið næringu, vernd, menntun og heilsugæslu – fengið tækifæri á bjartari framtíð.

Allt starf UNICEF byggist á frjálsum framlögum og því er stuðningur heimsforeldra hjartað í starfseminni. Heimsforeldrar gera UNICEF kleift að bregðast samstundis við þegar neyðarástand brýst út, vera áfram til staðar fyrir börn eftir að kastljós fjölmiðla er farið annað, sinna hjálparstarfi á svæðum sem njóta engrar fjölmiðlaathygli, skipuleggja hjálparstarf til lengri tíma og beita sér á heimsvísu.

Á degi rauða nefsins vill UNICEF skemmta fólki og vekja um leið athygli á að heimsforeldrar og UNICEF berjast saman fyrir betri heimi fyrir öll börn. Á hverjum degi sést árangur af þessari baráttu – árangur sem hefur bein áhrif á börn og færir þeim von og betra líf.

Dagur rauða nefsins er skemmtun sem skiptir máli. Það er gaman að gefa og hláturinn getur lengt lífið, í bókstaflegri merkingu. Dagurinn nær hámarki með skemmtidagskrá á RÚV í kvöld þar sem grínistar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarmenn búa til ógleymanlegt kvöld. Í þættinum koma fram yfir 200 manns, auk þess sem 50 sjálfboðaliðar munu svara í símann í símaveri Vodafone. Ég hvet alla til að fylgjast með, slást í hóp heimsforeldra og njóta kvöldsins.

Um leið vil ég þakka öllum þeim fjölmörgu sem þegar eru heimsforeldrar hér á Íslandi. Þetta er fólk út um allt land og á öllum aldri – raunar skilja 98 ár á milli yngsta heimsforeldrisins og þess elsta. Hvergi eru hlutfallslega fleiri heimsforeldrar en hér á Íslandi og það er frábært!

 

Höfundur er upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×