Skoðun

Orð í tíma töluð

Hjörleifur Hallgrímsson skrifar
„Ég er búinn að vera formaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík í aðeins í nokkrar vikur. Mér blöskrar hvernig ástandið er. Ég skammast mín fyrir þá deyfð og áhugaleysi, sem ríkir meðal þeirra, sem ráða för og eiga að gæta velferðar og virðingar gagnvart hagsmunum eldri borgara,“ segir Ellert B. Schram í ágætri grein í Fréttablaðinu fyrir stuttu.

Og hann heldur áfram og segist ekki sjá leið til að fara með málefni eldri borgara gagnvart stjórnvöldum þar, sem undirtektir og skilningur er enginn. Þung orð.

Því má bæta hér við að einstaka alþingismaður talar um á hátíða­stundum að bæta þurfi smánarleg kjör aldraðra en svo ekki meir. Og áfram heldur þetta fólk í þúsundum talið að lifa undir fátækramörkum við sult og seyru á meðan auðmenn af t.d. Engeyjarætt í ríkisstjórn velta sér í allsnægtum að öllu leyti. Það er fátt til ráða eins og Ellert bendir á og þó eru þau til en vantar samstöðu. Sbr. búsáhaldabyltingin.

Það er hálf nöturlegt til þess að vita eins og komið hefur fram hjá fyrrverandi leiðtogum eldri borgara t.d. Þórunni Sveinbjarnardóttur og Hauki Ingibergssyni að allur vandi eldri borgara verði leystur með því að byggja sem flest hjúkrunarheimili og auðvitað er það góðra gjalda vert að vissu marki. Þessu fólki virðist fyrirmunað að skilja að vandinn liggur að stórum hluta í að eldri borgarar eru á svo lágum eftirlaunum og eiga jafnvel ekki fyrir mat, lyfjum, læknisaðstoð né öðru, sem kallast mannsæmandi lífskjör.

Það eru nefnilega mýmörg dæmi um að eldra fólk, sem lagt hefur verið inn á sjúkrastofnanir hafi jafnvel vart verið hugað líf vegna næringarskorts. Hvers vegna? Það hefur ekki haft peninga til að kaupa handa sér góðan og næringarríkan mat né aðra lífsnauðsyn.

Ef þetta fólk fengi eftirlaun við hæfi myndi vafalaust ástandið batna því margt af því vill búa áfram í heimahúsum og sjá um sig sjálft og er margt fært um það ef það hefði mannsæmandi eftirlaun. Þá þyrfti færri hjúkrunarheimili. Þetta skilja m.a. ráðherrarnir og auðmennirnir þeir Engeyjarfrændur alls ekki og því fer, sem komið er.

En að lokum hvar er Grái herinn, sem stofnaður var að mér skildist til stuðnings eldri borgurum? Það lá við lúðrablæstri og söng, blaðagreinum og myndatökum í upphafi.

Svo allt hljótt.

Höfundur er eldri borgari á Akureyri.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×