Fótbolti

Tuchel rekinn frá Dortmund eftir 21 mínútu langan krísufund

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Thomas Tuchel er atvinnulaus.
Thomas Tuchel er atvinnulaus. vísir/getty
Thomas Tuchel, þjálfari Dortmund, var í morgun látinn fara frá félaginu eftir stuttan fund með yfirmönnum þýska félagsins. Bild greinir frá.

Þýska blaðið kallar þetta lengsta skilnaðarferli Bundesligunnar en Tuchel hefur meira og minna rifist við yfirmenn sína síðustu fjóra mánuði út af leikmannamálum og fleiru tengdu liðinu.

Tuchel var að klára sitt annað tímabil með Dortmund en það hafnaði í þriðja sæti þýsku 1. deildarinnar þrátt fyrir að eyða 100 milljónum evra í leikmannakaup. Það vann þó þýska bikarinn.

Í fyrra, á fyrstu leiktíð Tuchel, hafnaði Dortmund í öðru sæti deildarinnar en tapaði í bikarúrslitum. Hann komst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í ár og í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í fyrra.

Tuchel mætti á L'Arrivée-hótelið í Dortmund klukkan 12.08 en það er sama hótel og sprengjan sprakk fyrir utan fyrir Meistaradeildarleikinn á móti Monaco í síðasta mánuði. Þar hitti hann yfirmenn sína.

Aðeins 21 mínútu síðar eða klukkan 12.29 var það ákveðið að Tuchel myndi ekki stýra Dortmund áfram og er liðið nú þjálfaralaust.

Uppfært 11.36: Dortmund hefur staðfest frétt Bild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×