Innlent

Lendir á mæðrum að brúa bilið frá fæðingarorlofi til dagvistunar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mæðurnar þurfa oftar en ekki að brúa bilið sem myndast eftir að fæðingarorlofi lýkur.
Mæðurnar þurfa oftar en ekki að brúa bilið sem myndast eftir að fæðingarorlofi lýkur. Vísir/Getty
Ekki ríkir jafnræði í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi hér á landi. Ísland sker sig frá öðrum Norðurlöndum þar sem lög segja til um við hvaða aldur börnum skuli boðið upp á dagvistun.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um dagvistunarúrræði sem unnin var af hálfu BSRB og var birt í dag. Þar kemur fram að börn á Íslandi eru að jafnaði um 20 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla en samanlagt fæðingarorlof beggja foreldra er níu mánuðir.

Sjá einnig: Gætu þurft að bíða í hálft þriðja ár eftir leikskólaplássi

Almennt nýta foreldrar sér dagforeldrakerfið til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, þar sem það er í boði. Sveitarfélögum ber hins vegar ekki skylda til þess að tryggja framboð dagforeldra né til að niðurgreiða þjónustu þeirra. Aðeins eru starfandi dagforeldrar í 21 af 74 sveitarfélögum í landinu, en í þeim búa um 88 prósent íbúa landsins.

Á Íslandi eru engin lög um hvenær börn eigi rétt á dagvistunarúrræðum. Er þetta frábrugðið öðrum Norðurlöndum þar sem réttur barna til dagvistunar helst í hendur við rétt foreldra til fæðingarorlofs þannig að þegar orlofinu sleppir eiga börn lögbundinn rétt á dagvistun.

Langflest börn yngri en tólf ára eru heima hjá sér.Vísir/Eyþór

Mæðurnar mun lengur frá vinnu en feðurnir

Í skýrslunni segir að miðað við tölur frá Hafstofu Íslands megi áætla að börn komist að meðaltali í einhverja dagvistun, til dæmis leikskóla eða til dagforeldra, á bilinu tólf til fimmtán mánaða gömul. Þar sem fæðingarorlof beggja foreldra sé samtals níu mánuðir þurfi flestir foreldrar að brúa að jafnaði þriggja til sex mánaða bil með einhverjum hætti.

Tölur Hagstofunnar sýna jafnframt að langflest börn yngri en tólf mánaða séu hvorki hjá dagforeldrum né á leikskólum. Í skýrslunni segir að það bendi til þess að þau séu heima hjá foreldrum sínum eða ættingjum.

Sjá einnig: Feðrum sem nýta rétt til fæðingarorlofs heldur áfram að fækka

Rannsóknir sýni hins vegar að mæður axli almennt mestan þunga af því að brúa það bil sem þarf. Ef að barn fái dagvistun tólf mánaða aldri megi því gera ráð fyrir að móðirin hafi verið í um 9,5 mánuði frá vinnu en faðirinn í um 2,5 mánuði. Þá hefur konan verið um fjórfalt lengur frá vinnumarkaði en maðurinn.

Núverandi fyrirkomulag tryggi því að litlu eða engu leyti að báðir foreldrar fái jafna möguleika til þátttöku á vinnumarkaði að loknu fæðingarorlofi. Ekki verður séð að jafnræði ríki í þjónustu við börn að loknu fæðingarorlofi.

Leggur BSRB því áherslu á að fæðingarorlofið verði lengt í tólf mánuði og tryggja þurfi með lögum rétt barna til leikskólavistunar strax að þeim tíma liðnum.


Tengdar fréttir

Sér fram á tekjuleysi í rúmt ár

Tekjuleysi í rúmt ár blasir við nýbakaðri móður í Bolungarvík þar sem ekkert dagforeldri er í bænum. Fleiri eru í sömu stöðu en húsnæði sem ætlað er dagforeldrum hefur staðið autt í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×