Innlent

Akraborgin hefur siglingar í næstu viku

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Akraborgin mun byrja ferjusiglingar milli Akraness og Reykjavíkur í næstu viku. Bæjarstjórinn á Akranesi segir bæjarbúa spennta. Þá muni siglingarnar auka straum ferðamanna til Akraness.

Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem kanna á fýsileika þess að halda úti ferjusiglingum milli Akraness og Reykjavíkur og mun ferjan til að byrja með sigla óslitið í 6 mánuði. Rekstraraðilinn sem valinn var í verkið eru Sæferðir ehf sem vinna nú hörðum höndum að því að gera allt klárt en stefnt er að því að fyrsta ferðin verði farin í næstu viku. Ferjan er stödd í Noregi en mun vera á leiðinni til landsins og næstu dögum.

„Við sjáum fram á það að allir sem sækja vinnu til Reykjavíkur og öfugt geti þá fengið nýjan valkost,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri.   

Reiknað er með að sigl­ing­in yfir fló­ann taki að jafnaði um 25 mín­út­ur hvora leið. „ Siglingar hefjast 10 júní og við gerum ráð fyrir að við náum því,“ segir Sævar Freyr.   

Sævar segir ferðirnar mikið fagnaðarefni fyrir íbúa bæjarins.  „Og við sjáum einnig fram á það við getum einnig nýtt þetta fyrir ferðamenn. Við erum að styrkja samstarf við alla ferðamannaþjónustu hérna á Akranesi,“ segir Sævar Freyr.  

Þá vonast hann til að ferjan muni gera starfsmönnum HB Granda, sem misstu vinnuna á dögunum, kleift að sækja vinnu hjá HB Granda í Reykjavík. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×