Innlent

Telur formennsku útvarpsstjóra ekki hafa áhrif á hlutlægni fréttastofu

Jakob Bjarnar skrifar
Rakel Þorbergsdóttir segir útvarpsstjóra ekki hafa nein áhrif á fréttastofuna og vill meina að trúverðugleikinn standi traustum fótum. Óðinn Jónsson telur hins vegar aðhaldshlutverkið í uppnámi.
Rakel Þorbergsdóttir segir útvarpsstjóra ekki hafa nein áhrif á fréttastofuna og vill meina að trúverðugleikinn standi traustum fótum. Óðinn Jónsson telur hins vegar aðhaldshlutverkið í uppnámi.
„Formennska útvarpsstjóra í jafnréttisráði hefur engin áhrif á getu fréttastofunnar til að fjalla um ráðið eða mál tengd því. Fréttastofan er sjálfstæð og óháð ritstjórn sem útvarpsstjóri hefur engin afskipti eða áhrif á,“ segir í svari Rakelar Þorbergsdóttur fréttastjóra RUV við fyrirspurn Vísis.

Í gær tilkynnti Þorsteinn Víglundsson jafnréttisráðherra að hann hafi skipað Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra formann jafnréttisráðs. Ekki virðast neinar efasemdir, hvorki hjá ráðherra né útvarpsstjóra, hafa vaknað um að það kynni að hafa áhrif á stöðu RUV, að aðhaldshlutverk fjölmiðilsins og óhæði gæti þar með verið teflt í voða.

Á RUV að veita ráðherra aðhald?

Óðinn Jónsson dagskrárgerðarmaður á RUV, fyrrverandi fréttastjóri þar en hann skrifaði á sínum tíma ítarlegar siðareglur fyrir stofnunina og telst sem slíkur sérfróður um fagleg atriði sem lúta að fréttamennsku, telur hins vegar engan vafa leika á því. Hann varpaði fram eftirfarandi spurningu á Facebooksíðu sinni í gær:

„Útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins er skipaður án tilnefningar til að leiða ráðgefandi nefnd á pólitísku sviði ráðherrans sem skipaði hann. Ætli þetta hafi gerst áður? Jafnréttisráð veitir vonandi ráðherranum og fleirum aðhald. Hver á að veita Jafnréttisráði aðhald? Ríkisútvarpið?“

Telur trúverðugleika hinn sama og áður

Ef setja má putta á samfélagslegt hlutverk fjölmiðla hlýtur það að snúa að aðhaldshlutverki gagnvart hinu opinbera og ráðandi öflum. En, Rakel telur hins vegar trúverðugleika fréttastofu RUV standa óhaggaðan þrátt fyrir þessa skipan Þorsteins.

„Við nálgumst allar opinberar stofnanir, fyrirtæki, hagsmunaðila og aðra sem við fjöllum um með sama hætti. Beitum sömu vinnubrögðum og óhlutdrægni. Eftirlit og aðhald fréttastofunnar sem fjölmiðils er því ekki hætta búin og þessi skipan á ekki að rýra trúverðugleika fréttastofunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×