Innlent

Breskur ferðamaður skreið lærleggsbrotinn niður Seljalandsheiði

Ferðamaðurinn var þrekaður þegar hann náði loksins að kalla á hjálp.
Ferðamaðurinn var þrekaður þegar hann náði loksins að kalla á hjálp. Loftmyndir ehf.
Ferðamaður skreið lærbrotinn niður Seljalandsheiði fyrir ofan Seljalandsfoss í tvo klukkutíma áður en hann náði athygli vegfarenda sem kölluðu eftir hjálp nú fyrr í kvöld.

Greint var fyrst frá málinu á vef Ríkisútvarpsins.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi að ferðamaðurinn sé Breti á þrítugsaldri sem hafði verið einn á skokki á stuttbuxum og bol þegar hann hrasaði og lærleggsbrotnaði í kjölfarið.

Hann átti þann eina kost að skríða niður heiðina en eftir um tvær klukkustundir var hann um 100 metrum frá bænum Seljalandi þar sem hann náði að vefa til ferðamanna sem hlúðu að honum og kölluðu eftir hjálp. Hann var fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús í Reykjavík.

Þorgrímur Óli segir ferðamanninn ekki hafa verið hætt kominn, en hann hafi vissulega verið þrekaður eftir þessa miklu raun. Veður hafi verið með besta móti. „Það hefði verið verra ef það hefði verið rigning og kuldi,“ segir Þorgrímur Óli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×