Sport

Ponzinibbio hræðist ekki Gunnar Nelson: Ég hef kraft til að rota hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Santiago Ponzinibbio er á hraðferð upp metorðalistann.
Santiago Ponzinibbio er á hraðferð upp metorðalistann. vísir/getty
Argentínski bardagakappinn Santiago Ponzinibbio er hvergi banginn fyrir bardagann á móti Gunnari Nelson í Glasgow þann 16. júlí en bardagi þeirra verður aðalatriðið á UFC Fight Night 113.

Gunnar Nelson vonaðist eftir bardaga á móti einum af þeim bestu eftir tvo sannfærandi sigra á Albert Tumenov og nú síðast Alan Jouban í mars en enginn af efstu mönnum styrkleikalistans var laus.

Ponzinibbio er búinn að vinna fjóra bardaga í röð í veltivigtinni og komst inn á styrkleikalistann í fyrsta sinn þegar hann var síðast gefinn út. Argentínumaðurinn er þar í þrettánda sæti en hann er búinn að vinna sex af síðustu sjö bardögum sínum í UFC. Gunnar Nelson er í níunda sæti.

„Ég bjóst við stórum bardaga. Ég er búinn að vinna fjóra í röð og þar af er ég búinn að rota tvo í fyrstu lotu og fá tvo einróma dómaraúrskuði. Ég vissi að ég fengi eitthvað stærra næst og ég er ánægður með að fá aðalbardaga kvöldsins á móti jafnflottum íþróttamanni og Gunnar Nelson. Hann sér flotta sögu innan UFC,“ segir Ponzinibbio í viðtali við MMA Fighting.

Sá argentínski óttast ekki gæði Gunnars í gólfinu en það eru fáir innan UFC sem eru betri í brasilísku jiu-jitsu en Mjölnismaðurinn.

„Ég veit að ég hef kraft til að rota Gunnar. Ég verð klár í fimm lotur ef þess þarf en vonandi klára ég hann fyrr. Ég mun vera með fullkomna leikaðferð,“ segir Ponzinibbio og gerir svolítið lítið úr jiu-jitsu hæfileikum Gunnars.

„Þetta er MMA (blandaðar bardagalistir) ekki jiu-jitsu. Það er önnur íþrótt. Ég er með frábæra jiu-jitsu þjálfara og æfingafélaga þegar kemur að því. Ég er góður í jiu-jitsu og hef engar áhyggjur af því sem Gunnar er góður í. Ef hann gefur mér opnun þá mun ég ná honum,“ segir Santiago Ponzinibbio.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×