Innlent

Steingrímur: Fjármálaráðherra aleinn og yfirgefinn á evrubolnum sínum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Steingrímur minntist sérstaklega á klæðnað Benedikts í ræðu sinni á þingi.
Steingrímur minntist sérstaklega á klæðnað Benedikts í ræðu sinni á þingi. vísir/skjáskot/rúv
Fjármálaáætlunin, sem átti að vera aðalumræðuefni dagsins, er í hreinu uppnámi enda ljóst að forsætisráðherra stendur ekki við bakið á fjármálaráðherra hvað áætlunina varðar, sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, á Alþingi í dag.

Algjört uppnám

„Með öðrum orðum: hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra, formaður Viðreisnar, stendur aleinn, yfirgefinn á sviðinu, á evrubolnum sínum og enginn í þessari ríkisstjórn ber blak af áformum hans. Með öðrum orðum aftur, frú forseti, málið er í algjöru uppnámi,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur vísaði með þessu til klæðaburðar Benedikts Jóhannssonar fjármálaráðherra í sjónvarpsfréttum RÚV í gær þar sem hann skartaði fagurbláum stuttermabol merktum evrunni en fréttin fjallaði um gjaldmiðil okkar – íslensku krónuna.

„Í gær kom hér í þinginu skýrt í ljós að hæstvirtur forsætisráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, stendur ekki við bakið á fjármálaráðherra sínum varðandi ríkisfjármálaáætlun og gaf algjörlega upp að til stæði að falla frá væntum virðisaukaskattsbreytingum á ferðaþjónustuna eða slaka þar til,“ sagði hann.

„Heyr, heyr“

Steingrímur fór hörðum orðum um ríkisstjórnina við undirtektir úr þingsal. „Þetta er ónýt ríkisstjórn, kemur sér ekki saman um neitt, hefur tekist að verða ótrúlega sundruð á örfáum mánuðum og það er stórhættulegt fyrir landið að búa við ónýta ríkisstjórn meðan ójafnvægið hleðst upp í hagkerfinu og endar með þeim mun meiri ósköpum sem lengur dregst að taka á því,“ sagði hann og heyrðist þá úr þingsal: „Heyr, heyr!“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×