Innlent

Ólafur búinn að borga reikninginn frá Myndstef

Jakob Bjarnar skrifar
Höfundarréttargreiðslan sem Ólafur þurfti að inna af hendi vegna notkunar á verki Hrings nemur 200 þúsund krónum.
Höfundarréttargreiðslan sem Ólafur þurfti að inna af hendi vegna notkunar á verki Hrings nemur 200 þúsund krónum.
Björgvin Guðmundson, eigandi fyrirtækisins KOM, ráðgjafar, sem aðstoðaði Ólaf Ólafsson fésýslumann við gerð myndbands sem vakti mikla athygli, segir að gengið hafi verið frá höfundarréttargreiðslum vegna notkunar verks Hrings Jóhannssonar listamanns. Samkvæmt heimildum nemur höfundarréttargreiðslan 200 þúsund krónum.

Verki Hrings var stillt upp með áberandi hætti í bakgrunni en ávarpið birti Ólafur á síðunni soluferli.is sama dag og Ólafur mætti fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. En, deginum áður hafði honum verið tilkynnt að hann fengi ekki að flytja mál sitt óstytt og greip hann því til þessa ráðs.

Vísir greindi frá málinu fyrr í dag, að Myndstef væri að undirbúa kröfu á hendur Ólafi vegna notkunarinnar, sem snýr þá að höfundarrétti. Og einnig var rætt við Þorra Hringsson, son listamannsins. Hann sagðist ekki eiga neitt sökótt við Ólaf, þetta væri prinsippmál sérstaklega til að vekja athygli á því að myndlist er ekki verðlaus menningarafurð.

„Eins og Þorri Hringsson nefnir í frétt Vísis í dag var þetta gert í algjöru ógáti,“ segir Björgvin Guðmundsson eigandi KOM ráðgjafar, sem aðstoðaði við gerð myndbandsins. „Myndstef benti okkur á þetta bréfleiðis á miðvikudag. Þegar við áttuðum okkur á hvers eðlis málið var þá óskuðum við eftir að fá sendan reikning til að standa skil á réttmætri höfundarréttargreiðslu til erfingja listamannsins. Þann reikning fengum við í dag og hann hefur verið greiddur. Við biðjum hlutaðeigandi velvirðingar á þessari handvömm,“ segir Björgvin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×