Enski boltinn

Vill frekar verða klámstjarna en halda áfram í fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benoit Assou-Ekotto og Harry Redknapp fyrir nokkrum árum síðan.
Benoit Assou-Ekotto og Harry Redknapp fyrir nokkrum árum síðan. Vísir/Getty
Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Birmingham City, er að leita að nýjum leikmanni til að styrkja liðið fyrir næsta tímabil og hann var búinn að finna einn þegar það kom upp smá vandamál.

Redknapp segist hafa viljað semja við Benoit Assou-Ekotto, fyrrum varnarmann Tottenham Hotspur, en vandamálið við það sé ekki fótboltatengt.

Harry Redknapp segir að leikmaðurinn hafi ekki lengur sama áhuga á því að spila fótbolta því hann hafi nú mestan áhuga á því að verða klámstjarna. Independent segir frá.

Kamerúnmaðurinn gerði eins árs samning við franska liðið Metz í byrjun síðasta tímabils en hann hefur spilað fyrir Harry Redknapp hjá bæði Tottenham og Queens Park Rangers.

Hinn 33 ára gamli Assou-Ekotto er þekktur að fara sínar eigin leiðir og hann hefur talað um að hann hafi ekki lengur sömu ástríðu fyrir fótboltanum sem er bara vinna í hans augum í dag.

„Eina vandamálið er að hann hefur viðurkennt fyrir mér að hann vilji verða klámstjarna. Kannski næ ég einu ári út úr honum áður en hann ákveður að fara út í þá vinnu,“ sagði Harry Redknapp í léttum tón í viðtali við netþáttinn Spurs Show.

„Hann er góður leikmaður og hver veit nema að hann spili með Birmingham á næstu leiktíð,“ sagði Redknapp.

Benoit Assou-Ekotto á 24 landsleiki fyrir Kamerún og hann spilaði í sjö tímabil með Tottenham frá 2006 til 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×