Enski boltinn

Conte: Wenger er einn besti stjóri sögunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Conte og Arsene Wenger.
Antonio Conte og Arsene Wenger. Vísir/Getty
Antonio Conte og Arsene Wenger mætast með liðin sín á Wembley í dag en þá fer fram úrslitaleikur ensku bikarkeppninnar.

Arsenal og Chelsea mætast klukkan 16.30 og leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Hörður Magnússon mun lýsa bikarúrslitaleiknum í ár.

Hinn 67 ára gamli Arsene Wenger hefur verið knattspyrnustjóri Arsenal frá 1996 en Antonio Conte  er að klára sitt fyrsta tímabil með Chelsea.

Conte hefur þegar gert Chelsea að enskum meisturum en getur nú náð í fyrstu tvennuna í Englandi í sjö ár.

Antonio Conte talaði mjög vel um franska stjórann í samtali við enska blaðamenn fyrir bikarúrslitaleikinn en BBC segir frá.

„Ég veit vel hversu góðum árangri Arsene Wenger hefur náð í enska bikarnum og hversu marka titla hann hefur unnið,“ sagði Antonio Conte en Wenger getur í dag unnið sinn sjöunda bikarmeistaratitil með Arsenal-liðinu.  

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um framtíð Wenger hjá Arsenal en hann sjálfur sagði að framtíð hans myndi ráðast á stjórnarfundi eftir bikarúrslitaleikinn.

„Ég held ekki að þetta verði síðasti leikur Arsene með Arsenal. Hann á skilið að vera stjóri Arsenal. Hann hefur staðið sig frábærlega. Fólk á Englandi vill stundum gera lítið úr því að koamst í Meistaradeildina sem er mikið afrek,“ sagði Conte.

„Hann er mjög góður stjóri og hann er einn af bestu knattspyrnustjórum sögunnar,“ sagði Conte.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×