Skoðun

Stefnuleysi og metnaðarleysi í menntun

Andrés Ingi Jónsson skrifar
Menntastefna ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er ekki beysin. Þessa dagana ræðir þingheimur stöðu framhaldsskólastigsins, en því miður ræðum við ekki metnaðarfulla stefnu til framtíðar heldur útfærslur. Menntamálaráðherra hefur teymt umræðuna út í það fúafen að snúast um rekstrarform og sameiningu einstakra stofnana. Það gerði hann með því að fela tveimur skólastjórum að skoða kosti þess að Tækniskólinn taki yfir rekstur Framhaldsskólans við Ármúla.

Í ljós hefur komið að ráðherrann hafi látið stjórnarþingmenn vita af þessum áformum áður en við í stjórnarandstöðunni heyrðum fyrst af þeim í fréttum, líkt og aðrir landsmenn. Þetta eru ömurleg vinnubrögð, en ömurlegust eru þau gagnvart nemendum og kennurum, sem eru í mikilli óvissu um stöðu sína.

Ráðherrann tönnlast á því að engin ákvörðun hafi verið tekin og að tryggt verði að yfirtakan á FÁ verði ekki nýtt til að skera niður fjárveitingar. En hvað hefur reynslan kennt okkur?

Þegar framhaldsskólinn var styttur úr fjórum árum í þrjú, þá var því lofað að sparnaður yrði nýttur til að efla skólana. Það var sagt fullum fetum í fjármálaáætlun sem var samþykkt í fyrra. Í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem er til umræðu þessa dagana er annað upp á teningnum. Fjárveitingar til framhaldsskóla lækka milli ára og aðhaldskrafa á þá allt að fjórfaldast. Aðhaldskrafan fer úr 0,5% upp í að vera á milli 1,5 og 2% á næstu fimm árum!

Er nokkuð sem bendir til þess að núverandi ríkisstjórn standi með menntakerfinu? Það birtist ekki í stefnumörkun, sem er engin nema tilviljanakenndar ákvarðanir sem eru drifnar áfram af blindri trú á einkavæðingu og einkarekstur án greiningar. Það birtist ekki í fjárveitingum, sem lækka ár frá ári. Og það er fjarri því að birtast í samskiptum við þing eða skólasamfélagið, þau samskipti eru skammarleg.

Nei, ef menntakerfið á að fá að blómstra, þá verður það ekki undir forystu núverandi ríkisstjórnar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×