Skoðun

Sýnum flott fordæmi – verum fyrirmyndir

Rakel Sölvadóttir skrifar
Það var ekki fyrr en ég flutti til Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum sem ég virkilega fann fyrir því hversu langt við erum komin í jafnréttismálum kynjanna á Íslandi. Viðmót og viðhorf karla til kvenna í Bandaríkjunum fannst mér vægast sagt sjokkerandi og í viðskiptaheiminum var það „alfa-maðurinn“ sem réð ríkjum og alls ekki sjálfgefið að konur gengju í hvaða störf sem er.

Fyrir þennan tíma skildi ég eiginlega ekki alla þessa umræðu um jafnréttisbaráttu. Ég ólst upp með þá sýn að það væri enginn kynjamunur og að konur jafnt sem karlar gætu tekið að sér hvaða störf sem er og fengið laun í samræmi við framlegð í starfi. Ég á foreldrum mínum það að þakka að ég fékk tækifæri frá unga aldri til að upplifa störf sem þótt hafa karllæg. Ég var ekki nema 8 ára þegar ég fór fyrst á sjó með pabba og á svipuðum aldri fylgdist ég með mömmu ná kjöri í bæjarstjórn. Það er því ekki skrítið að mér hafi fundist eðlilegast í heimi að konur væru á sjó, að konur væru í pólitík og/eða að konur væru heimavinnandi.

Í dag veit ég að það er jafnréttisbaráttunni að þakka hversu langt við erum komin miðað við önnur lönd. Það væri ekki raunin nema fyrir baráttu flottra kvenfyrirmynda Íslands sem hafa rutt veginn fyrir okkur sem á eftir komum. Fyrir þær er ég endalaust þakklát og eins fyrir að hafa alist upp með flottar fyrirmyndir beggja kynja mér við hlið. Það eru nefnilega jákvæðar fyrirmyndir beggja kynja sem skipta máli í baráttunni um jafnrétti.

Baráttunni er ekki lokið og það er á ábyrgð okkar allra að vera flottar fyrirmyndir fyrir næstu kynslóðir. Það er ekki síst á ábyrgð ráðamanna að sýna gott fordæmi. En hvernig fordæmi var forsætisráðherra að senda út þegar hann braut jafnréttislög og axlaði ekki ábyrgð? Eru skilaboðin að það sé í lagi að brjóta lög af því að þú heitir Bjarni Ben eða eru skilaboðin þau að það sé bara yfirhöfuð í lagi? Þessi lög eru til staðar af því að við þurfum enn á jafnréttisbaráttu að halda. Við megum ekki láta það líðast að einn af æðstu stjórnendum landsins kýli okkur aftur. Sem kona og sem móðir krefst ég þess að Bjarni Ben segi af sér og sýni það fordæmi sem hann óskaði af Jóhönnu Sigurðardóttur á sínum tíma.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×