Handbolti

Fyrirliði íslenska landsliðsins er á heimleið | Á sitt óskalið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. vísir/ernir
Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handbolta og atvinnumaður í sex ár, ætlar að spila heima á Íslandi á næsta tímabili.

Karen staðfesti þetta í viðtali við Morgunblaðið sem birtist í dag. Karen hefur ekki enn samið við lið hér heima en allt bendir til þess að hún fari aftur í Fram. „Fram er mitt óskalið,“ sagði Karen í samtali við Ívar Benediktsson hjá Morgunblaðinu.

Karen Knútsdóttir hefur verið lykilmaður í íslenska landsliðinu í langan tíma en hún hefur skorað 310 mörk í 86 landsleikjum. Hún er fjórða markahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

Karen náði aldrei að verða Íslandsmeistari áður en hún fór í atvinnumennsku. Hún fékk silfur með Framliðinu fjórum sinnum eða árið 2008, 2009, 2010 og 2011.

Karen spilaði fyrst tvö ár í Þýskalandi, þá eitt ár í Danmörku og hefur undanfarin þrjú tímabil spilað með franska liðinu Nice. Hún hefur þó ekkert getað spilað frá því í febrúar vegna nárameiðsla.

Framliðið er byrjað að endurheimta sínar stelpur úr atvinnumennsku því áður hefur landsliðshornamaðurinn Þórey Rósa Stefánsdóttir ákveðið að snúa heim í Safamýri en hún hefur spilað erlendis frá því að hún yfirgaf Fram árið 2009. Hún á því eftir að verða Íslandsmeistari með Fram alveg eins og Karen.

Fram er búið að taka eitt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum í ár með því að komast í 1-0 í úrslitaeinvíginu á móti Stjörnunni en liðin mætast aftur í Safamýri í kvöld.  Fái liðið síðan Karen og Þórey báðar fyrir næsta tímabil má búast við miklu af Framliðinu á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×