Lífið

Íslenski hópurinn verður áfram í Úkraínu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Felix Bergsson með hjónunum Einari og Svölu á blaðamannafundi á dögunum.
Felix Bergsson með hjónunum Einari og Svölu á blaðamannafundi á dögunum. vísir/eurovision.tv
„Við verðum úti fram á sunnudag. Það var það hagkvæmasta í stöðunni. Þannig að hér er fólk bara að chilla og bíða eftir að komast heim á sunnudag,“ segir Felix Bergsson, fararstjóri íslenska Eurovision-hópsins í Kænugarði.

Sem kunnugt er komst hópurinn, með Svölu Björgvinsdóttur í fararbroddi, ekki upp úr fyrri undanriðli Eurovision. Felix segir að í framhaldinu hafi verið reynt að finna flug heim en að það hafi verið of kostnaðarsamt og því verði hópurinn úti um helgina.

„Breytingagjald á hverjum miða eru um 120 evrur, því þetta eru tveir leggir, og þetta var bara vonlaust mál. Við fáum eiginlega ekkert endurgreitt á hótelinu og úr varð að við verðum hér fram á sunnudag. Menn eru bara að sleikja sárin í rólegheitunum og við RÚV-ararnir vinnum bara okkar vinnu hér áfram.“

Seinni keppnin mun slappari

Felix segir mikla gleði ríkja innan hópsins þrátt fyrir að hafa ekki komist upp úr undankeppninni. Allir séu afar sáttir við framlag Íslendinga í ár.

 „Stemningin er rosalega góð og menn eru mjög sáttir. En núna er seinni undankeppnin og svekkjandi að sjá hvað hún er miklu, miklu slappari en þessi undanriðill sem við vorum í. Ég held það sé niðurstaða flestra sem sjá það að úr þeim undanriðli hefðum við átt meiri möguleika á að komast áfram. En það er eitthvað sem þýðir ekkert að velta fyrir okkur,“ segir hann.

Bara sumir fá miða

Þá segir Felix aðspurður að fólk sé spennt fyrir aðalkeppninni en uppáhalds lög íslenska hópsins er það sænska, ítalska og portúgalska. Hins vegar fái aðeins hluti hópsins miða á keppnina.

„Við eigum ekki miða fyrir alla. Við fáum miða á æfingar og nokkra miða á Grand Final, en það eru líka sumir sem vilja taka því rólega á laugardagkvöldinu því við fljúgum mjög snemma á sunnudagsmorgninum. Aðrir verða að fylgjast með á hótelinu eða Euro-village eða annars staðar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×