Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Víkingur Ó. 1-3 | Ólsarar komnir á blað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Alexander Veigar Þórarinsson, leikmaður Grindavíkur.
Alexander Veigar Þórarinsson, leikmaður Grindavíkur. vísir/ernir
Víkingur Ólafsvík náði sér í sín fyrstu stig í Pepsi-deild karla þetta sumarið þegar þeir unnu góðan sigur á Grindavík á útivelli í dag, en lokatölur urðu 3-1. Fyrstu stig Ólafsvíkinga í hús, en þeir spiluðu agaðan og þéttan varnarleik sem skilaði þessu í hús.

Fyrri hálfleikurinn var mögulega einn sá leiðinlegasti sem hefur verið leikinn í upphafi á þessu Íslandsmóti, en vindurinn hafði einhver áhrif. Það var þónokkur vindur, en það gerðist lítið sem ekki neitt í fyrri hálfleik.

Bæði lið voru of mikið að sparka upp í vindinn og boltinn fauk bara útaf. Ráðleysi, en Víkingur Ólafsvík var komið í 5-3-2 og því bæði lið með fimm manna vörn. Í síðari hálfleik var meira fjör og fyrsta markið kom þegar Guðmundur Steinn Hafsteinsson stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu Alonso Sanches Gonzales eftir einungis tveggja mínútna leik í síðari hálfleik.

Skömmu síðar kom annað mark Ólafsvíkinga, en það kom einnig eftir hornspyrnu. Það skoraði Kenan Turudija og staðan 2-0 eftir um sjö mínútur í síðari hálfleik. Grindavík reyndu að færa sig framan, en þeir náðu lítið sem ekkert að skapa sér af færum og fengu mark í bakið eftir skyndisókn. Þar var að verki Þorsteinn Már Ragnarsson.

Grindavík náði að klóra í bakkann áður en yfir lauk, en Juan Jimenez náði að minnka muninn eftir stoðsendingu frá Will Daniels í uppbótartíma en það var alltof seint. Lokatölur 3-1 sigur Ólsara sem eru komnir á blað í Pepsi-deildinni.

Afhverju vann Víkingur Ólafsvík?

Tvær hornspyrnur í upphafi síðari hálfleiks skiluðu þremur stigum í hús fyrir Ólafsvík, en þetta eru fyrstu stig þeirra í sumar eftir erfiða byrjun. Þeir voru afar skipulagðir í sínum varnarleik, en þeir voru komnir með fimm manna vörn.

Þeir réðu við flest allt það sem Grindavík bauð upp á sem var ekki margt, en varnarleikurinn hjá liðinu í heild sinni var til mikillar fyrirmyndar. Þeir nýttu svo hornspyrnurnar tvær til þess að skora tvö mörk og gerðu þetta bara mjög fagmannlega á erfiðum útivelli í erfiðu veðri.

Þessir stóðu upp úr

Það er erfitt að draga einhverja upp úr hattinum. Leikurinn var ekki rismikill og gæði leiksins voru ekki mikil. Varnarleikur Ólafsvíkur í heild sinni eins og ég sagði áðan var góður og markaskorararnir Kenan Turudija og Guðmundur Steinn Hafsteinsson fá tilnefningu ásamt Alonson sem átti fínan leik á miðjunni og tók hornspyrnurnar sem skiluðu tveimur mörkum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Grindvíkinga var lítill sem enginn. Þeir náðu varla að skapa sér færi í leiknum, en varnarmennirnir komu trekk í trekk upp með boltann og lítil hreyfing var á fremstu mönnum. Þeir náðu ekki að finna sér leið í gegnum Ólafsvíkur-múrinn sem stóð þétt og gaf fá færi á sér.

Einnig tókst Grindavík illa að ráða við föstu leikatriðin hjá Ólafsvík, en í svona jöfnum leik máttu ekki gefa tvö mörk eftir tvær hornspyrnurnar. Það er einfaldlega ekki í boði og það þarf Grindavík að laga fyrir næsta leik.

Hvað er næst?

Víkingur Ólafsvík er komið á blað og þeir fá Eyjamenn í heimsókn í næstu umferð, en þar er annar gífurlega mikilvægur leikur fyrir Ólsara. Nái þeir til dæmis í þrjú stig þar og þá er Víkingur komið í mjög góð mál. Grindavík mætir stigalausum Skagamönnum í næstu umferð upp á Skaga, en Víkingur spilar eftir viku og Grindavík næsta mánudag.

Grindavík:

Kristijan Jajalo 5

Hákon Ívar Ólafsson 4 (’56 - Will Daniels 5)

Sam Hewson 5

Gunnar Þorsteinsson 4 (’90 - Nemanja Latinovic)

Alexander Veigar Þórarinsson 5

Milos Zeravica 5

Jón Ingason 4

Brynjar Ásgeir Guðmundsson 5 (’73 - Juan Manuel Ortiz Jimenez)

Björn Berg Bryde 5

Aron Freyr Róbertsson 4

Andri Rúnar Bjarnason 4

Víkingur Ólafsvík:

Cristian Martinez Liberato 6

Ignacio Heras Anglada 6

Tomasz Luba 6

Guðmundur Steinn Hafsteinsson 6 (’85 - Egill Jónsson)

Alonso Sanches Gonzales 7 (’81 - Alfreð Már Hjaltalín)

Emir Dokara 6

Kwama Quee 6

Pape Mamadou Faye 5 (’66 - Þorsteinn Már Ragnarsson 5)

Mirza Mujcic 6

Gunnlaugur Hlynur Birgisson 6

Kenan Turudija 6

Ejub: Vikan verður skemmtilegri

„Ég er mjög ánægður að vera kominn með einhverja punkta,” sagði Ejub Purisevic, þjálfari Víkings, í samtali við Vísi í leikslok.

„Mér fannst við vera vel skipulagðir og agaðir. Við biðum eftir færum. Þetta var leikur sem gat fallið báðu megin, en við nýttum okkar færi og komumst í 2-0.”

„Mér fannst við spila þokkalega vel gegn KR, en í dag vorum við aðeins betri en það. Eina sem var slæmt við þennan leik var þetta mark í lokin.”

Þetta voru fyrstu stig Víkinga í mótinu, en hann segir þó að þessi þrjú stig séu fín en nóg af leikjum og stigum séu eftir í pottinum.

„Það er alltaf gott að komast á blað, en þessi sigur er góður en gerir ekki mikið fyrir okkur. Það er mikið af leikjum og stigum eftir, en við þurfum að mæta klárir í næsta leik. Vikan verður skemmtilegri.”

Félagsskiptaglugginn lokar á morgun og reiknar Ejub ekki með að fá fleiri leikmenn, en eru þó opin fyrir góðum leikmönnum.

„Við erum alltaf opnir fyrir rosalega góðum leikmönnum, en ég efast um að við fáum fleiri fyrir lokun,” sagði Ejub glaðbeittur að lokum.

Óli Stefán: Getum ekki litið á okkur sem lúxus lið

„Aðstæðurnar voru fínar. Það fyrsta sem mér dettur í hug er spilamennska okkar og mér fannst við ekki bregðast við þeirra leik,” sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, við Vísi í leikslok.

„Við duttum niður á dapurt plan. Allt við Víkingsliðið kom mér nákvæmlega ekkert á óvart. Við vitum fyrir hvað þeir standa og þeir gera það fyrir, en það sem kom mér á óvart er hvernig við brugðumst vð þessum bardaga.”

„Þeir skora tvö mörk úr föstum leikatriðum sem við hefðum auðveldlega getað komið í veg fyrir ef við hefðum verið fókuseraðir og þeir eru á undan í þessa bolta.”

„Ég hef oft sagt það að við erum í þessari deild til að berjast upp á líf og dauða. Við getum aldrei litið á okkur sem eitthvað lúxus lið eða ætla að fara í hlutina til að hafa fyrir því,” sagði Óli virkilega ósáttur og hélt áfram:

„Það þarf alltaf að hafa fyrir öllum okkar leikjum. Það brást, að hluta til í okkar síðari hálfleik hér í dag.”

Grindavík hafði nælt sér í fjögur stig fyrir leikinn og var þetta full mikil niðursveifla að mati Óla?

„Við vorum slakir hluta af síðasta leik þó við hefðum náð í úrslit og við vorum ekkert slakir allan leikinn hér í dag. Við vorum að reyna og allt það, en það eru kaflar sem særa okkur hér í dag. Það kom mér á óvart að við hefðum ekki verið klárir í það,” sagði Óli Stefán að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira