Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - Fjölnir 2-0 | Frábær byrjun KA heldur áfram

Arnar Geir Halldórsson skrifar
KA-menn eru komnir með sjö stig.
KA-menn eru komnir með sjö stig. vísir/stefán
KA-menn tylltu sér á topp Pepsi-deildarinnar, um stundarsakir hið minnsta, þegar liðið vann 2-0 sigur á Fjölni á Akureyrarvelli í kvöld að viðstöddum 1044 áhorfendum í uppgjöri tveggja liða sem voru taplaus í fyrstu tveim umferðunum.

KA-menn mættu virkilega ákveðnir til leiks og á 18.mínútu kom Elfar Árni Aðalsteinsson þeim yfir þegar hann skallaði boltann framhjá Þórði Ingasyni. Kom markið eftir langt innkast Darko Bulatovic sem Emil Lyng fleytti áfram og á kollinn á Elfari sem skoraði þarna sitt annað mark í sumar.

KA-menn voru öflugri aðilinn  í fyrri hálfleik án þess þó að bæta við marki. Þeir þurftu að gera breytingu á liði síni eftir um hálftíma leik þegar vinstri bakvörðurinn Bulatovic neyddist til að fara af velli vegna meiðsla. Inn í hans stað kom Ólafur Aron Pétursson og fór hann á miðjuna, Aleksandar Trninic færðist í hjarta varnarinnar og Ívar Örn Árnason fór í vinstri bakvörð.

Þrátt fyrir þessar hræringar á liðinu héldu KA-menn áfram að ráða ferðinni og stíf pressa þeirra í upphafi síðari hálfleiks skilaði marki á 57.mínútu þegar Lyng afgreiddi frábæra fyrirgjöf Hallgrims Mar Steingrímssonar í netið framhjá varnarlausum Þórði. Fjölnismenn settu meira púður í sóknarleikinn í kjölfarið án þess þó að ógna marki KA að verulegu leyti en Srdjan Rajkovic var vel með á nótunum þegar á þurfti að halda og hélt marki sínu hreinu. Lokatölur 2-0 fyrir KA.

Af hverju vann KA?

KA-menn voru betri aðilinn stærstan hluta leiksins og áttu sigurinn algjörlega skilið. Fjölnismenn lágu til baka og ætluðu sér að beita skyndisóknum en þeir náðu ekki að skapa sér mörg marktækifæri. KA-menn voru virkilega agaðir í öllum sínum aðgerðum þrátt fyrir að hafa neyðst til að gera verulegar breytingar á leikskipulagi sínu þegar Darko Bulatovic fór meiddur af velli eftir hálftíma leik.

Sigur KA fyllilega verðskuldaður og þeir voru nær því að bæta við mörkum heldur en Fjölnir að minnka muninn.

Hverjir stóðu upp úr?

Þetta var frábær liðsframmistaða hjá KA-liðinu þar sem allir leikmenn liðsins skiluðu sínu og er erfitt að taka einhvern út sem skaraði fram úr. Hallgrímur Mar og Ásgeir Sigurgeirsson voru mjög ógnandi og Emil Lyng skilaði marki og stoðsendingu. Aleksandar Trninic átti góðan leik, fyrst sem miðjumaður og stóð sína plikt vel þegar hann var færður niður í miðvörð. Srdjan Rajkovic hafði ekki mjög mikið að gera en gerði vel þegar hans krafta var óskað.

Hvað gekk illa?

Fjölnismönnum gekk afar illa að finna leið framhjá skipulögðu liði KA. Birnir Snær Ingason og Þórir Guðjónsson reyndu mikið en það gekk lítið upp hjá þeim auk þess sem þeir fengu litla hjálp frá öðrum. Sköpuðu sér fá færi en hefðu þó með smá heppni getað skorað mark og þannig komið sér inn í leikinn.

Hvað gerist næst?

Næst á dagskrá hjá báðum liðum er 32-liða úrslit Borgunarbikarsins þar sem bæði lið mæta liðum úr neðri deildum. Fjölnismenn þurfa að fara aftur norður á fimmtudag þar sem þeir eiga útileik gegn 2.deildarliði Magna frá Grenivík. KA-menn hinsvegar fá Inkasso-deildarlið ÍR í heimsókn á Akureyrarvöll á miðvikudag.

KA (4-2-3-1): Srdjan Rajkovic 7, Bjarki Þór Viðarsson 5, Guðmann Þórisson 6, Ívar Örn Árnason 6, Darko Bulatovic 6 (Ólafur Aron Pétursson 6), Aleksandar Trninic 8 – Maður leiksins, Almarr Ormarsson 6, Hallgrímur Mar Steingrímsson 8, Ásgeir Sigurgeirsson 7, Emil Lyng 7, Elfar Árni Aðalsteinsson 7.

Fjölnir (4-2-3-1): Þórður Ingason 6, Mees Siers 5, Ivica Dzolan 5, Hans Viktor Guðmundsson 4, Mario Tadejevic 6, Igor Jugovic 4, Gunnar Már Guðmundsson 4 (Ægir Jarl Jónasson 5), Marcus Solberg 5, Birnir Snær Ingason 7, Þórir Guðjónsson 6, Ingimundur Níels Óskarsson 5.

Ágúst Gylfa: Ef þú skorar ekki vinnur þú ekki fótboltaleiki

Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, viðurkenndi að KA-menn hefðu verið grimmari og sagði úrslitin vera sanngjörn.

„Þetta var sanngjarn sigur. Þeir voru grimmari en við og við nýttum ekki þau færi sem við fengum og þar við sat. Ef þú skorar ekki þá vinnur þú ekki fótboltaleiki. Þeir voru mjög grimmir og þetta var verðskuldað. Við mættum bara mjög grimmu liði KA og náum ekki að svara því fyrr en seint í leiknum og þá voru þeir komnir í 2-0. Það eru klárlega vonbrigði að fá ekkert út úr þessu.“

„KA-liðið kom mér ekki á óvart. Þeir mættu grimmir til leiks og eru með marga góða leikmenn. Við áttum bara í erfiðleikum með að taka á móti þeim. Ég hefði viljað sjá okkur skora allavega eitt mark. Við fengum færi til þess.“

Fjölnismenn eru með fjögur stig að þremur umferðum loknum og segir Ágúst að hann hefði gjarnan viljað vera með aðeins fleiri stig eftir fyrstu þrjá leikina. Hann hefur ekki áhyggjur af sóknarleiknum þó liðið hafi aðeins skorað eitt mark til þess.

„Við ætluðum okkur að fá eitthvað út úr þessu. Það hefði litið vel út að vera með fimm eða sjö stig eftir þrjá leiki en það gerðist ekki. Ég hef ekki áhyggjur af sóknarleiknum. Við vitum að við erum með mjög gott sóknarlið en við þurfum kannski að fara breyta sóknarleiknum og gera meiri atlögu að markinu.“

„Nú tekur við bikarleikur hjá okkur á móti Magna frá Grenivík og það verður hörkuleikur. Við verðum að vera tilbúnir þar og við verðum allavega að skora þar til að vinna.“

Túfa: Gaman að vera á toppnum

Srdjan Tufegdzic, þjálfari KA, var að vonum hæstánægður í leikslok og hrósaði liði sínu í hástert.

„Ég er mjög ánægður. Þetta var erfiður leikur að spila því Fjölnisliðið er gott og völlurinn var svolítið laus í sér. Þeir vilja spila mjög direct og það er erfitt að spila á móti svona liðum. Við undirbjuggum okkur mjög vel og strákarnir vissu hvernig átti að leysa þetta verkefni í dag. Ég er virkilega stoltur af strákunum í dag. Þeir gáfu allt í þetta.“

Nýliðar KA eru taplausir eftir þrjár umferðir en hversu lengi getur þetta haldið áfram?

„Vonandi getur þetta haldið áfram mjög lengi. Við ætlum að halda áfram og taka bara einn leik fyrir í einu. Ég er mjög ánægður með spilamennskuna í þessum fyrstu þrem leikjum. Mér finnst við klárlega vera að bæta okkur leik frá leik í þessum fyrstu þrem leikjum.“

Darko Bulatovic, vinstri bakvörður KA, þurfti að fara af velli eftir hálftíma leik eftir að Ingimundur Níels Óskarsson virtist traðka á honum. Túfa var ekki ánægður með það sem hann sá.

„Mér fannst hann stíga á hann. Þetta var ekki langt frá mér og mér fannst þetta ekki líta vel út. Ég veit ekki alveg hvernig staðan er á honum, við vitum það betur á morgun,“ segir Túfa sem hyggst ekki bæta fleiri leikmönnum við leikmannahópinn áður en félagsskiptaglugginn lokar á morgun.

„Okkar leikmannahópur lokaðist fyrir löngu. Ég er mjög ánægður með hópinn og tel okkur vera með mjög sterkan hóp. Við höfum sýnt það í þessum þrem leikjum þar sem margir strákar sem hafa verið að koma inn hafa skilað sínu. Það kemur maður í manns stað hjá okkur,“

KA tyllti sér á toppinn með sigrinum en Túfa fer rólega í allar yfirlýsingar.

„Við ætlum ekki að koma strax með miklar yfirlýsingar um hvað KA ætlar að gera í sumar. Við höldum áfram að undirbúa okkur vel fyrir hvern einasta leik. Okkur leið vel í fyrra þegar við vorum á toppnum og það er bara gaman að staðan sé þannig í dag en við hugsum bara um næsta leik,“ sagði Túfa að lokum.

Hallgrímur Mar: Trúum því að við getum unnið hvaða lið sem er

Hallgrímur Mar Steingrímsson var maðurinn á bak við flestar sóknaraðgerðir KA í leiknum eins og svo oft áður. Hann var að vonum í skýjunum með úrslitin.

„Þetta var mjög gaman. Sérstaklega þar sem þetta var fyrir fullum velli og það var mjög kærkomið að vinna þennan leik. Það var fyrst og fremst barátta sem skilaði okkur þessum sigri. Við vorum ofan á í henni stærstan hluta leiksins og það skilaði þrem punktum, “

Hallgrímur fór varlega í yfirlýsingarnar líkt og þjálfari sinn þegar hann var spurður að því hvort KA-menn gætu blandað sér í toppbaráttuna í sumar.

„Það verður bara að koma í ljós. Við erum fullir sjálfstrausts og trúum því að við getum unnið hvaða lið sem er. Við förum í hvern leik til að ná í þrjá punkta, “

„Svo lengi sem við töpum ekki leikjum þá höldum við okkur þarna en það kemur bara í ljós. Við viljum ekki setja markið of hátt. Það er raunhæft að stefna á að vera um miðja deild og ef vel gengur getum við farið aðeins ofar en það er erfitt að segja til um það svona snemma í mótinu,“ segir Hallgrímur Mar og greinilegt að nýliðarnir halda sér á jörðinni þrátt fyrir draumabyrjun.

„Túfa sér alveg til þess að við höldum okkur á jörðinni og við erum vel undirbúnir fyrir hvern einasta leik. Það er það sem skiptir máli; að halda skipulagi og við gerum það. Við erum bara að hugsa um okkur sjálfa, “ segir Hallgrímur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira