Erlent

Tveir borgarar létust í átökum milli Indverja og Pakistana

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Indverskir hermenn í Kasmír.
Indverskir hermenn í Kasmír. Vísir/EPA
Indverskir og pakistanskir hermenn skiptust á skotum á laugardaginn í Kasmír héraði með þeim afleiðingum að tveir borgarar létu lífið og sex særðust. Guardian greinir frá.

Manish Mehta, talsmaður indverska hersins, segir að pakistanskir hermenn hafi átt upptökin að átökunum með því að skjóta á indverskar herstöðvar á Nowshera svæðinu svokallaða sem skiptir héraðinu upp á milli Indverja og Pakistana.

Pakistanski herinn hefur þvertekið fyrir að hafa átt upptök að átökunum og segja talsmenn hans að indverskir hermenn hafi sjálfir hafið skothríðina með þeim afleiðingum að þrír pakistanskir borgarar særðust.

Samkvæmt upplýsingum frá Shahid Iqbal, svæðisstjóra indverska hluta svæðisins, létust tveir borgarar á svæðinu vegna átakanna, 13 ára gömul stúlka og 51 árs ára gamall maður.

Fyrr í mánuðinum sökuðu indversk yfirvöld pakistanska hermenn um að hafa myrt tvo indverska hermenn og vanvirt lík þeirra en pakistönsk yfirvöld hafa neitað þeim ásökunum.

Átök hafa aukist að undanförnu á svæðinu og eru þau nú þau mestu frá því að ríkin tvö samþykktu vopnahlé árið 2003.

Bæði Indverjar og Pakistanar hafa gert tilkall til Kasmír héraðsins frá því að ríkin fengu sjálfstæði frá Bretum árið 1947. Ríkin hafa tvisvar sinnum háð stríð vegna héraðsins en bæði ríki hafa yfir að búa kjarnorkuvopnum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×