Erlent

Segir árásir á bandaríska stjórnkerfið upprunar innan þess

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
James Clapper, var yfirmaður njósnamála þar til í janúar 2017, þegar Donald Trump tók við völdum.
James Clapper, var yfirmaður njósnamála þar til í janúar 2017, þegar Donald Trump tók við völdum. Vísir/EPA
Fyrrverandi yfirmaður njósnastofnanna í Bandaríkjunum, James Clapper, segir að stofnanakerfi bandaríska stjórnkerfisins sé í hættu eftir ákvörðun Donald Trump um að reka James Comey úr embætti forstjóra alríkislögreglunnar. Þetta kemur fram í viðtali Clapper við CNN

„Að mínu mati verða stofnanir okkar fyrir árásum, bæði utan frá, af höndum Rússa sem reyna að hafa áhrif á kosningarnar en líka innan frá.“

Clapper svaraði því játandi þegar hann var þá spurður hvort að hann ætti við sjálfan forsetann með þessum orðum og að það væri þá hann sem bæri ábyrgð á slíkum árásum. 

Hann kallaði eftir því að bandarískar alríkisstofnanir myndu nýta sér þær heimildir sem þær hafa til valdtemprunar við forsetavaldið. Stjórnkerfi Bandaríkjanna hefði verið hannað fyrir aðstæður líkt og þessar.

Demókratar sem og Repúblikanar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hafa kallað eftir því að dómsmálaráðuneytið útnefni sérstakan saksóknara til þess að fara með rannsókn á tengslum starfsliðs Trump við Rússa en Jeff Sessions, dómsmálaráðherra, segir að ekkert slíkt sé í burðarliðnum. 

Forsetinn íhugar nú hvaða einstakling hann á að útnefna í stöðu forstjóra alríkislögreglunnar en öldungadeild þingsins mun þurfa að staðfesta útnefninguna. Forstjóranum er ætlað að gegna lykilhlutverki í rannsókn á tengslum við Rússa.

Donald Trump hefur ítrekað vitnað til orða James Clapper um sakleysi sitt hvað varðar tengsl við Rússa en Clapper sagði eitt sinn að „engin gögn hefðu bent til þess að um tengsl væri að ræða á milli starfsliðs Trump og Rússa.“

Í umræddu viðtali sagðist Clapper vera orðinn þreyttur á þeim ummælum Trump.

Hann hefði vissulega sagt að ekkert benti til tengsla þar á milli en að það hefði samt enga þýðingu um hvort að hún væri raunverulega til staðar. Hann hefði til að mynda ekki vitað að alríkislögreglan væri að rannsaka tengslin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×